Þó hagkerfi Bandaríkjanna hafi gengið í gegnum sögulegan samdrátt á undanförnum mánuðum er ekki sömu sögu að segja af fjórum af stærstu tæknifyrirtækjum landsins. Alphabet, Amazon, Apple og Facebook skiluðu samtals um 28,6 milljarða dala hagnaði á öðrum fjórðungi ársins. Gróflega reiknað er það um 3,9 billjónir króna (3.855.280.000.000).
Sala Amazon jókst um 40 prósent á milli ára og hagnaðurinn tvöfaldaðist. Hagnaður Facebook jókst um 98 prósent og þó Apple hafi þurft að loka mörgum verslana fyrirtækisins jókst sala fyrirtækisins í öllum hlutum heimsins. Fyrirtækið hagnaðist um 11,25 milljarða á ársfjórðungnum, samkvæmt frétt New York times.
Alphabet, móðurfyrirtæki Google stóð sig ekki jafn vel, þar sem auglýsingatekjur fyrirtækisins drógust töluvert saman, eða um tíu prósent. Það stóð sig þó betur en sérfræðingar og greinendur höfðu gert ráð fyrir.
Þetta var opinberað degi eftir að þingmenn gegnu hart fram gegn forstjórum þessara fyrirtækja varðandi ráðandi stöðu þeirra á mörkuðum Bandaríkjanna.
Einn viðmælandi NYT vísar til þess að þó fjöldi fyrirtækja hafi orðið gjaldþrota á undanförnum mánuðum standi þessir fjórir risar enn öllum hærri og hafi eingöngu hækkað enn frekar.
Með útgöngubönnum og ferðatakmörkunum hafa sífellt fleiri neytendur snúið sér að Amazon. Svipaða sögu er að segja af Apple en fyrirtækið segir fleiri kaupa tæki frá Apple samhliða aukinni heimavinnu og fleiri nýti einnig þjónustur fyrirtækisins.
Þó auglýsingar hafi dregist verulega saman hafa Facebook og Google veðrað það óveður betur en aðrir samkeppnisaðilar þeirra eins og fjölmiðlar og önnur tæknifyrirtæki. Microsoft tilkynnti til að mynda í uppgjöri sem opinberað var í síðustu viku að auglýsingatekjur hefðu dregist saman um 18 prósent á milli ára.