Heildarafli íslenskra skipa árið 2019 var 17 prósentum minni en árið 2018 og skýrist samdráttur í aflamagni að mestu af minni uppsjávarafla. Fram kemur hjá Hagstofu Íslands að aflaverðmæti fyrstu sölu hafi hins vegar aukist um 13,4 prósent milli ára og hafi numið 145 milljörðum króna árið 2019.
Heildaraflinn sem veiddist var 1.047.568 tonn, af þeim voru rúmlega 480 þúsund tonn af botnfiski sem er álíka mikið og árið 2018. Aflaverðmæti botnfiskaflans var 112,3 milljarðar króna sem er 24 prósent aukning frá árinu áður.

Mest veiddist af þorski árið 2019 og var hann sem fyrr verðmætasta tegundin. Þorskaflinn nam tæplega 273 þúsund tonnum og nam aflaverðmæti fyrstu sölu tæpum 70 milljörðum króna. Þá var uppsjávartegundaaflinn ríflega 534 þúsund tonn í fyrra sem er 27,7 prósentum minna en á fyrra ári.
Samkvæmt Hagstofunni munar þar mest um að loðnu hafi ekki verið landað á árinu sem hefur ekki gerst síðan loðnuveiðar hófust árið 1962. Loðnuaflinn nam 178 þúsund tonnum árið 2018 og var aflaverðmætið um 4,7 milljarðar króna. Af uppsjávarafla veiddist mest af kolmunna eða rúm 268 þúsund tonn. Aflaverðmæti uppsjávaraflans samanstóð af makríl, að verðmæti tæplega 85 milljarða krona, kolmunna að verðmæti 7,2 milljarða og síld, að verðmæti 5,9 milljarða.

Rúmlega 22 þúsund tonn veiddust af flatfiski árið 2019 sem er 18,1 prósentum minna en árið áður. Aflaverðmæti hans nam 9,3 milljörðum sem er um 8,3 prósentum lægra en árið áður. Þá minnkaði löndun á skelfisk og krabbadýrum um 2,5 þúsund tonn, úr 12,5 þúsund tonnum árið 2018 niður í 10 þúsund tonn árið 2019. Verðmæti skel- og krabbadýra nam tæplega 1,9 milljörðum sem er 28,5 prósentum minna en árið áður.