Erlent

Fyrsta smitið í landinu í 102 daga

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Auckland á Nýja-Sjálandi.
Frá Auckland á Nýja-Sjálandi. Getty

Nýtt kórónuveirusmit hefur greinst á Nýja-Sjálandi, en um er að ræða fyrsta smitið í landinu í 102 daga.

Sky News segir frá því að öldrunarheimili hafi verið lokað eftir að íbúar þar sýndu einkenni þess að vera með Covid-19.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir að tímabundnum aðgerðum verði komið á í Auckland til að heilbrigðisyfirvöld geti metið stöðuna.

„Við biðjum fólk í Auckland að halda kyrru fyrir heima til að stöðva útbreiðsluna. Hegðaðu þér eins og þú sért með Covid, og eins og annað fólk í kringum þig sé með Covid.“

Athygli hefur vakið hve vel yfirvöldum á Nýja-Sjálandi hefur gengið að hefta útbreiðslu veirunnar þar. Eru skráð smit þar nú 1.570 frá upphafi faraldursins og dauðsföllin 22.

Þau tímamót urðu í morgun að fjöldi skráðra kórónuveirusmita í heiminum fór yfir 20 milljónir. Talið er að raunverulegur fjöldi sé þú miklu hærri, meðal annars vegna takmarkaðrar skimunar víða og sömuleiðis að allt að 40 prósent sýktra sýni engin einkenni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×