Tónlistamaðurinn geðþekki Ed Sheeran og eiginkona hans Cherry Seaborn eru sögð eiga von á sínu fyrsta barni á næstu dögum. Parið hefur haldið þunguninni leyndri en Seaborn er sögð eiga von á sér á næstu vikum.
Sheeran tilkynnti í desember síðastliðnum að hann myndi taka sér frí frá tónlistinni eftir tveggja og hálfs árs tónleikaferðalag um heiminn. Heimildarmaður The Sun segir parið hafa ákveðið að nýta tímann í það að stofna fjölskyldu og eftir að kórónuveirufaraldurinn fór á flug í Bretlandi hafi þau getað leynt óléttunni í langan tíma.
„Útgöngubannið var fullkomin afsökun til þess að sjást ekki á almannafæri, en nú fer þetta að bresta á og spennan farin að magnast svo þau eru farin að segja vinum og fjölskyldu," segir heimildarmaðurinn.
Sheeran og Seaborn kynntust þegar þau voru saman í gagnfræðaskóla. Þau byrjuðu þó ekki saman fyrr en árið 2015 og giftu sig árið 2018.