Áhorfendur verða ekki leyfðir á íþróttaleikjum frá og með morgundeginum þegar leyft verður á ný að stunda íþróttir með snertingu hér á landi.
Uppfært: Upphaflega var sagt í fréttinni að áhorfendur yrðu leyfðir, meðal annars út frá upplýsingum frá ÍSÍ, en sá misskilningur hefur verið leiðréttur.
Það var skilningur íþróttahreyfingarinnar, meðal annars íþrótta- og ólympíusambands Íslands, að eftir auglýsingu heilbrigðisráðherra í vikunni yrðu áhorfendur leyfðir frá og með morgundeginum, í hundrað manna hólfum. Þá hefjast aftur íþróttir með snertingu. Á þessu byggði frétt Vísis fyrir hádegi og voru félög farin að undirbúa komu áhorfenda á leiki í Pepsi Max-deildunum í fótbolta um helgina, út frá upplýsingum sem þau fengu í morgun.
Í hádeginu fundaði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, með ÍSÍ og sérsamböndum og þar kom fram að áhorfendur verða ekki leyfðir á íþróttaleikjum á næstunni. Misskilningurinn var þar með leiðréttur. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, staðfesti þetta við Vísi. Víðir mun skýra málið betur á fundi almannavarna í dag.
Líney sagði ekki ljóst hve lengi áhorfendabannið myndi gilda og að sú ákvörðun gæti verið endurskoðuð að viku liðinni.