Viðskipti innlent

Rekstrarhagnaður Regins minnkaði um 6,2% milli ára

Andri Eysteinsson skrifar
Meðal fasteigna sem Reginn leigir út eru verslunarpláss í Smáralind.
Meðal fasteigna sem Reginn leigir út eru verslunarpláss í Smáralind. Vísir/Vilhelm

Rekstrartekjur fasteignafélagsins Regins á fyrri helmingi ársins 2020 námu 4.736 m.kr en rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 3.040 m.kr og lækkar um 6,2% frá 2019.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2020 sem samþykktur var af stjórn félagsins í dag. Í tilkynningu vegna uppgjörsins segir að grunnrekstur félagsins sé traustur en áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar gæti víða í rekstrinum.

„Reginn hefur haft frumkvæði í því að koma á samstarfi við leigutaka til að takast á í sameiningu við erfiðar aðstæður í efnahagslífinu vegna COVID-19 faraldursins og hömlum á starfsemi leigutaka. Það samstarf mun skila félaginu og leigutökum þess ávinningi til framtíðar,“ segir í tilkynningunni.

Hagnaður félagsins eftir tekjuskatt nam 95. m.kr samanborið við 2.117 á sama tímabili í fyrra. Handbært fé frá rekstri á tímabilinu var 1.071 m. kr og er hagnaður á hlut fyrir tímabilið 0,05 en var 1,16 á sama tímabili 2019.

Fjöldi fasteigna í eigu Regins er 116 og heildarfermetrar um 377 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er 97% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi en eignasafnið er að mestu óbreytt á milli tímabila.

Stjórnendur er þrátt fyrir mikla óvissu bjartsýnir á horfurnar fram undan, fjárhagsstaða félagsins sé sterk og fjárhagsleg skilyrði vel innan marka lánaskilmála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×