Erlent

Blæs í glæður umdeildrar kenningar um kjörgengi Harris

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi í gær.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi í gær. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur nú blásið eldi í glæður afar umdeildrar kenningar sem gengur út á Kamala Harris, varaforsetaefni Joe Biden, forsetaframbjóðanda Demókrata, sé ekki gjaldgeng í embættið.

Harris fæddist í Oakland í Kalíforníu og var faðir hennar frá Jamaíku og móðir hennar indversk.

Íhaldssamur lagaprófessor frá Kalíforníu hefur sett spurningamerki við kjörgengi Harris í ljósi þess að foreldrar hennar hafi verið í landinu sem námsmenn en ekki löglegir borgarar. Því geti hún ekki talist bandarískur ríkisborgari.

Trump var spurður út í þessa kenningu á blaðamannafundi og sagðist kannast við hana og bætti við að lögfræðiprófessorinn sem setti hana fram sé afar hæfur og virtur í sínu fagi.

Prófessorinn virðist þó næstum einn um þessa skoðun sína því aðrir lagaprófessorar hafa hamast við að hafna þessari kenningu síðasta sólarhringinn og benda á stjórnarskrá Bandaríkjanna sem segir að allir þeir sem fæðist í Bandaríkjunum séu ríkisborgarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×