Viðskipti erlent

Segir að skála ætti í kampavíni fyrir nýja olíuvinnslusvæðinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sylvi Listhaug, olíumálaráðherra Noregs, lent á Johan Sverdrup-svæðinu í Norðursjó, til að vera við opnunarathöfnina.
Sylvi Listhaug, olíumálaráðherra Noregs, lent á Johan Sverdrup-svæðinu í Norðursjó, til að vera við opnunarathöfnina. Mynd/Arne Reidar Mortensen, Equinor.

Norðmenn hafa formlega tekið í notkun eitt verðmætasta olíuvinnslusvæði í sögu Noregs. Það kom í hlut Ernu Solberg forsætisráðherra að opna svæðið eftir að Haraldur Noregskonungur forfallaðist á síðustu stundu vegna veikinda. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2.

Svæðið er í Norðursjó, um 140 kílómetra vestur af Stafangri, kallast Johan Sverdrup, og það þykir sæta furðu að olían þar fannst ekki fyrr en árið 2010. Svo þýðingarmikið er svæðið talið fyrir efnahag Noregs að það þótti við hæfi að fá Harald Noregskonung til að opna það.

Erna Solberg forsætisráðherra lent á þyrlupalli olíuvinnslusvæðisins.Mynd/Arne Reidar Mortensen, Equinor.

Konungur veiktist hins vegar á síðustu stundu og liggur nú á sjúkrahúsi í Osló. Því kom það í hlut Ernu Solberg forsætisráðherra að leiða vígsluathöfnina í fyrradag ásamt forystumönnum ríkisolíufélagsins Equinor.

Olíulindir svæðisins eru svo gjöfular að þær eru taldar framlengja olíuævintýri Norðmanna um hálfa öld.

„Þetta er stórt framlag til velferðar okkar í framtíðinni. Hérna verður framleitt fyrir 200 milljónir á sólarhring. Það eru verðmæti héðan sem munu styðja rekstur sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila og skóla og alls sem við þurfum,“ sagði Erna Solberg þegar hún formlega gangsetti vinnslusvæðið.

Erna Solberg í viðtali við TV-2 í Noregi.Mynd/TV 2, Noregi.

Skipan hinnar umdeildu Sylvi Listhaug í embætti olíumálaráðherra fyrir jól þykir undirstrika þá stefnu norsku ríkisstjórnarinnar að gefa ekkert eftir í olíuleit.

Þegar fréttamaður hins norska TV-2 spurði hana um þau sjónarmið umhverfisverndasamtaka að opnun nýja olíusvæðisins væri ekkert fagnaðarefni svaraði hún að þvert á móti ætti að skála í kampavíni.

Sylvi Listhaug, nýskipaður olíumálaráðherra, er einn umdeildasti stjórnmálamaður Noregs.Mynd/TV-2, Noregi.

„Þessu ber að fagna með kampavíni vegna þess að þetta vinnslusvæði framleiðir olíu og gas með mjög lítilli losun.

Við tölum hér um 700 grömm á hvert olíufat en meðaltalið í heiminum er 18 kíló, þannig að ef menn vilja minni losun þá er afar mikilvægt að Noregur haldi áfram olíu- og gasframleiðslu, sem er í fararbroddi tækniþróunar sem leiðir til umhverfisvænni jarðar,“ sagði Sylvi Listhaug olíu- og orkumálaráðherra.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Fimmtíu ár frá upphafi norska olíuævintýrisins

Það var á Þorláksmessu árið 1969 sem ráðamenn Phillips-olíufélagsins hringdu í norska iðnaðarráðuneytið og tilkynntu um að þeir hefðu fundið olíulind á Ekofisk-svæðinu í Norðursjó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×