Innlent

Flateyringar enn innlyksa

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Flateyri á þriðjudagskvöld.
Frá Flateyri á þriðjudagskvöld.

Flateyrarvegur er enn lokaður eftir snjóflóðin sem þar féllu á þriðjudag og íbúar Flateyrar því enn innlyksa. Að öðru leyti er færðin að komast í samt horf á Vestfjörðum eftir ófærð og lokanir síðustu daga.

Að sögn Vegagerðarinnar er búið að moka í gegnum snjóflóðin sem fallið höfðu í Skötufirði „og þar með er síðasta haftið farið af leiðinni.“ Að sama skapi er orðið fært til Suðureyrar og búið að opna Gemlufallsheiði. Vegirnir um Þröskulda og Steingrímsfjarðarheiði eru jafnframt opnir.

Veðrið á norðanverðum Vestfjörðum er prýðilegt þessa stundina, að sögn Gylfa Þórs Gíslasonar hjá lögreglunni á Ísafirði. Engin ofankoma og hægur vindur. Nóttin var „virkilega róleg,“ engin útköll tengd hamförum þriðjudagsins.

Hættustigi vegna snjóflóða sem lýst var yfir í fyrradag á norðanverðum Vestfjörðum var aflýst í gærkvöld. Þá var rýmingum á svæðinu einnig aflétt og allir sem þurftu að yfirgefa hús sín mega því snúa heim til sín. Á það jafnt við um íbúa Seljalandshverfis á Ísafirði og Flateyringa. Þeir síðarnefndu þurftu að fá „inni á Eyrinni“ að sögn Gylfa enda hefur Flateyrarvegur verið lokaður og íbúar sveitarfélagsins því innlyksa.

Af þeim sökum hefur þyrla Landhelgisgæslunnar sinnti ýmis konar flutningum fyrir Flateyringa og aðra Vestfirðinga síðastliðinn sólarhring. Ekki aðeins flutti hún óþreytt björgunarsveitarfólk vestur á ellefta tímanum í gærkvöldi heldur hafði hún áður verið nýtt til að ferja rafhlöður á Suðureyri, 100 kíló af matvælum fyrir Flateyri auk annarra vista og búnaðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×