Þjóðverjar tryggðu sér sæti í milliriðli á EM 2020 í handbolta með naumum sigri á Lettum, 27-28, í C-riðli.
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leikinn í Þrándheimi í dag.
Þýskaland var fimm mörkum yfir í hálfleik, 11-16, og náði mest sjö marka forystu í seinni hálfleik.
Lettland gafst ekki upp og minnkaði muninn í tvö mörk þegar fjórar og hálf mínúta var eftir. Uwe Gensheimer kom Þýskalandi þremur mörkum yfir og Lettland skoraði síðan tvö síðustu mörk leiksins. Lokatölur 27-28, Þjóðverjum í vil.
Julius Kühn var markahæstur Þjóðverja með átta mörk. Dainis Kristopans skoraði sjö mörk fyrir Letta.
Hvíta-Rússland fer áfram upp úr A-riðli ásamt Króatíu. Þetta var ljóst eftir stórsigur Hvít-Rússa á Svartfellingum, 27-36, í Graz í dag.
Mikita Vailupau skoraði sjö mörk fyrir Hvíta-Rússland. Vladan Lipovina var með fimm mörk hjá Svartfjallalandi.
