Innlent

„Deginum ljósara“ að aðgerðirnar stöðvi komur ferðamanna

Andri Eysteinsson skrifar

Það er deginum ljósara að hertar aðgerðir stjórnvalda við landamæraskimun stöðva allar komur ferðamanna til landsins. Þetta segir Kristófer Oliversson, formaður FHG – Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu og framkvæmdastjóri Center Hotels í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég held að það sé alveg deginum ljósara, og að stjórnvöld geri sér alveg grein fyrir því, að þetta stöðvar hreinlega allar komur ferðamanna til landsins. Það er í raun og veru svolítið dapurlegt því að við höfum verið að undirbúa haustið og reynt að koma lífi í bransann aftur,“ sagði Kristófer í samtali við Sindra Sindrason, fréttaþul. í kvöld.

Kristófer segir að búast megi við því að áhrifin af aðgerðunum munu vara mun lengur en þær standa yfir. „Við erum búin að setja fram söluherferðir, með margra mánaða undirbúningi, sem nú hafa verið blásnar af,“ segir Kristófer og bætir við að næsta „slot“ verði kannski ekki fyrr en eftir áramót.

Óvissan sé þá mikil og aðgerðirnar setji strik í reikninginn hjá mörgum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Hann segir að skoða þurfi framlengingar á úrræðum ríkisstjórnarinnar.

„Það náttúrulega veit enginn hvernig framtíðin verður en við heyrðum á forsætisráðherra í dag að hún ræddi um að stjórnvöld myndu skoða þær aðgerðir sem hafa verið í gangi og framlengingu á þeim. Það er alveg deginum ljósara að það þarf að skoða framlengingu á úrræðum gagnvart launafólki því að ég veit að bæði mitt fyrirtæki og önnur voru að skoða endurráðningar á fólki frá og með næstu mánaðamótum. Þetta gerir okkur náttúrulega mjög óviss,ׅ“ segir Kristófer.

Kristófer er eins og áður segir framkvæmdastjóri Center Hotels og segist hann ganga út frá því að fyrirtæki hans muni lifa aðgerðirnar af. Vonir hafi þó staðið til þess að veturinn yrði þolanlegur. „Við gerðum okkur vonir um að ná þolanlegum vetri til þess að við ættum fyrir launum og slíkum rekstri. Ef landið verður lokað um lengri tíma þá segir það sig sjálft að það koma engar tekjur inn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×