Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir mjög mikilvægt að íbúar og ferðamenn á Reykjanesi séu vel upplýstir ef ske kynni að eitthvað myndi gerast á svæðinu.
Óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna landriss við Þorbjörn í Grindavík, en líklegast þykir að kvika sé að safnast saman undir fjallinu.
Áslaug Arna ræddi við fréttamann Stöðvar 2 fyrr í kvöld þar sem hún sagði að góð og mikil vinna hafi farið fram í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð í dag. „Til þess einmitt að hafa viðbragð og viðbúnað í lagi ef ske kynni að eitthvað gerist á svæðinu. Það er auðvitað allur varinn góður. Hér er valinn maður í hverju rúmi, hvort sem talað er um vísindamenn eða í almannavörnum að undirbúa ef svo verður,“ segir Áslaug Arna.
Hún segir að verið sé að búa til viðbragðsáætlun með öllum aðilum sem koma að málinu. „Mikilvægt er að allar upplýsingar liggi fyrir og að fólk sé vel upplýst á svæðinu ef ske kynni að eitthvað gerist. Enn sem komið er er líklegast að þetta hætti bara en það er mikilvægt að vera við öllu búin og það er sú vinna sem er í gangi með öllum aðilum sem þurfa að koma að því.“
Hún segir að það séu hátt í fimm þúsund manns, íbúar og ferðamenn, séu alla jafna á svæðinu sem þyrfti að rýma ef allt færi á versta veg.
Og þá þyrfti að loka fyrirtækjum eins og Bláa lóninu?
„Já, það gæti auðvitað komið til þess ef þetta fer á versta veg en við viljum auðvitað vera við öllu búin enda þetta nálægt íbúabyggð og Bláa lóninu.“
Beinir ráðherra því til almennings á svæðinu að fylgjast vel með fréttum og minnir á íbúafundinn í Grindavík á morgun klukkan 16.