Innlent

Rann­saka þjófnað á hundruðum þúsunda úr bíl ferða­manna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ferðamenn dást hér að Strokki á hverasvæðinu við Geysi sem er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.
Ferðamenn dást hér að Strokki á hverasvæðinu við Geysi sem er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. vísir/vilhelm

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar þjófnað á pundum og evrum að verðmæti rúmlega 300 þúsund króna úr bíl erlendra ferðamanna við Geysi.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að ferðamennirnir hefðu tilkynnt þjófnaðinn til lögreglu á Suðurnesjum í vikunni. Þeir sögðu fjármunina hafa verið tekna úr bifreið sinni þar sem hún stóð á bílastæði við Geysi. Ferðamönnunum var þó ekki unnt að veita nánari upplýsingar um málið, sem nú er í rannsókn.

Þá varð þriggja bíla árekstur á Sunnubraut í Keflavík í vikunni. Í tilkynningu lögreglu segir að ökumaður bíls hafi ekið aftan á aðra bifreið sem kastaðist þá á enn aðra bifreið, sem var þar kyrrstæð fyrir framan.

Tveir ökumannanna sem þar áttu í hlut fundu til verkja eftir óhappið og ætluðu sjálfir að leita til læknis. Sama átti við um einn farþega.

Lögregla á Suðurnesjum stöðvaði einnig ökumann í umdæminu í vikunni sem var réttindalaus undir stýri. Um ítrekað brot var að ræða, að því er fram kemur í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×