Skoðun

Er Reykja­víkur­borg fyrsta flokks fjöl­skyldu­borg?

Valgerður Sigurðardóttir skrifar

Þegar teknar eru ákvarðanir hjá sveitarfélögum er mikilvægt að við höfum heildarsýn yfir þá þjónustu sem við erum að veita. Það er ekki auðvelt hjá Reykjavíkurborg þar sem ekki hefur verið mótuð fjölskyldustefna.  Það er með ólíkindum að stærsta sveitarfélag landsins hafi ekki mótað sér fjölskyldustefnu. Eitt af frumskilyrðum fyrir því hvar fólk velur sér búsetu er það hvort að samfélagið sé fölskylduvænt, þar sem börn og barnafjölskyldur búa við jöfn tækifæri, öryggi og njóti lögvarinna réttinda. Þetta hefur ekki verið tryggt hjá Reykjavíkurborg.

Nú er t.d ekki samræmi í þjónustu á leikskólum og frístund, þar sem leikskólar loka kl. 16:30 en frístund kl. 17. Þess vegna getur fólk sem á börn á leikskóla ekki lengur unnið í frístund því það fær ekki vistun fyrir börn sín. Börn eru send heim af leikskólum vegna manneklu og úr grunnskólum vegna veikinda kennara. Börn sem hafa ekki íslensku sem móðurmál vegnar ekki vel, einfaldlega af því að við hlúum ekki nægilega vel að þeim. Drengirnir okkar koma illa út úr lesskilning í PISA. Svona er þetta ekki í fyrsta flokks fjölskylduborg.

Lagt til að móta fjölskyldustefnu

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú lagt það til að Reykjavíkurborg móti sér fjölskyldustefnu, líkt og hefur verið gert í mörgum sveitarfélögum landsins. Stefnan er gríðarlega mikilvæg og getur ekki aðeins tekið á málefnum fjölskyldunnar af meiri festu heldur mun hún einnig tryggja afkomu barna og hagsmuni þeirra. Þá mun hún efla forvarnir og fræðslu fyrir fjölskyldur, tryggja að öll börn eigi kost á að taka þátt í skipulögðu frístundastarfi, auka stuðning við umönnun og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og tryggja velferð barna.

Fjölskyldan

Fjölskyldan er mikilvægasta eining hvers samfélags og allar framfarir og framkvæmdir sem samfélög ráðast í miða að því að styrkja fjölskylduna á einn eða annan hátt. Stefnan miðar fyrst og fremst að bættum hag íbúanna með fjölskylduna í huga. Fjölskyldueiningin verður sífellt fjölbreyttari og þarfir íslenskra fjölskyldna breytast með tímanum, því er mikilvægt að þjónusta sveitarfélaga taki mið af því og sé þannig sveigjanleg og fjölbreytt.

Tilgangur fjölskyldustefnunnar er sá að ná fram heildarsýn á þjónustu sveitarfélagsins við íbúa, gera starfið í málefnum fjölskyldunnar markvissara og auka lífsgæði íbúa með bættri þjónustu til lengri og skemmri tíma. Það er því gríðarlega mikilvægt að Reykjavíkurborg móti sér fjölskyldustefnu. Markmið með mótun fjölskyldustefnu er að tryggja að við alla stefnumótun, ákvarðanatöku og áætlanagerð á vettvangi Reykjavíkurborgar sé sérstaklega gætt að hagsmunum barna, unglinga og fjölskyldna. Þannig gerum við  Reykjavíkurborg að fyrsta flokks fjöl­skylduborg.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×