Innlent

Mikill viðbúnaður vegna skútu sem strandaði við Lund­ey

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Opal kemur til hafnar í kvöld.
Opal kemur til hafnar í kvöld. vísir/jói

Björgunarsveitir, þyrla Landhelgisgæslunnar og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins voru kölluð út klukkan 22:18 í kvöld vegna skútunnar Opal sem strandaði með 18 manns innanborðs við Lundey á Kollafirði.

Mikill viðbúnaður var vegna málsins samkvæmt upplýsingum frá slökkvilðinu; bátar og kafarar sendir á staðinn sem og sjóbjörgunarsveitir. Þá var þyrla Gæslunnar kölluð út á hæsta forgangi.

Virkja átti samhæfingarmiðstöð almannavarna vegna málsins en áhöfninni tókst að losa Opal af strandstað um 25 mínútum eftir að útkallið barst. Þá voru viðbragðsaðilar sem kallaðir höfðu verið út afturkallaðir.

Enginn leki hafði komið að bátnum og gat hann siglt til hafnar fyrir eigin vélarafli en í fylgd með hafnsögubátnum Jötni. Opal kom til hafnar á Miðbakkanum í Reykjavík skömmu fyrir klukkan hálftólf í fylgd björgunarsveita og tók lögregla á móti skipverjum og farþegum í landi.

Skútan kom til hafnar í Reykjavík skömmu fyrir hálftólf í kvöld.vísir/jói

Fréttin var uppfærð kl. 23:31.

Fyrst er útkallið barst var mikill viðbúnaður en eftir að áhöfninni tókst að losa skútuna var viðbragðið afturkallað.vísir/jói
Alls voru 18 manns um borð í bátnum.vísir/jói k.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×