Andreas Michelmann, forseti þýska handboltasambandsins, tjáði sig um ráðningu Alfreðs Gíslasonar í dag í viðtali á heimasíðu sambandsins.
Þýska sambandið tilkynnti þá að Christian Prokop yrði ekki lengur landsliðsþjálfari og Alfreð Gíslason fengi það verkefni að koma Þjóðverjum á Ólympíuleikana í Tókýó.
„Við tókum þessa erfiðu ákvörðun eftir langa umhugsun og eftir að hafa skoðað stöðuna vel með hagsmuni þýska handboltans að leiðarljósi,“ sagði Andreas Michelmann í viðtalinu á heimasíðu þýska sambandsins.
„Við viljum þakka Christian Prokop fyrir hans störf á síðustu árum og sérstaklega fyrir góða frammistöðu þýska landsliðsins á síðustu þremur stórmótum. Eftir að hafa greint spilamennsku liðsins á Evrópumótinu þá teljum við að við getum aðeins náð skammtímamarkmiðum okkar með því að fá inn nýjan drifkraft,“ sagði Michelmann.
„Alfreð Gíslason sem hefur margra ára reynslu og hefur náð miklum árangri, býr yfir slíkum drifkrafti og mun koma með ferska orku inn í þýska landsliðið,“ sagði Michelmann.
Alfreð verður formlega kynntur á blaðamannafundi í Hannover á morgun.
„Alfreð mun koma með ferska orku inn í þýska landsliðið“

Tengdar fréttir

Alfreð Gíslason nýr landsliðsþjálfari Þýskalands
Alfreð Gíslson var í dag tilkynntur sem nýr þjálfari þýska landsliðsins í handbolta en hann mun taka við starfinu 9. mars næstkomandi.