Innlent

Fluttur tals­vert slasaður á sjúkra­hús eftir hópslags­mál

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Annar mannanna hlaut talsverða áverka.
Annar mannanna hlaut talsverða áverka. Vísir/Vilhelm

Tveir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar eftir að hafa lent í slagsmálum á vínveitingastað í Fossvogi á öðrum tímanum í nótt. Annar þeirra hlaut töluverða áverka, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Tilkynnt var um slagsmálin klukkan korter yfir eitt í nótt. Alls voru fjórir menn handteknir, allir ölvaðir, og vistaðir í fangageymslu. Tveir þeirra voru fyrst fluttir á sjúkrahús, líkt og áður sagði.

Þá var maður handtekinn á heimili sínu í gærkvöldi grunaður um innbrot í fyrirtæki í Kópavogi fyrr um kvöldið. Tilkynnt var um innbrotið seint á tíunda tímanum og stóð það þá enn yfir. Þegar lögregla kom á vettvang höfðu skemmdir verið unnar á húsnæðinu en óljóst hvort einhverju hafði verið stolið. Í dagbók lögreglu segir að grunur hafi fljótlega beinst að umræddum manni.

Starfsfólk óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar úr verslun í miðbæ Reykjavíkur seint í gærkvöldi. Hinn grunaði þjófur hafði einnig fíkniefni í fórum sínum, að því er segir í dagbók lögreglu. Hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×