Fótbolti

Ólgusjór innan raða Barcelona eftir að Messi sagði sína skoðun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi var ekki ánægður með orð íþróttastjórans.
Lionel Messi var ekki ánægður með orð íþróttastjórans. Getty/David Ramos

Forráðamenn Barcelona þurfa væntanlega að bregðast hratt við eftir að stærsta stjarna liðsins Lionel Messi og íþróttastjórinn Eric Abidal eru fóru að karpa opinberlega.

Lionel Messi var nefnilega allt annað en sáttur með það sem Eric Abidal sagði í viðtali í spænska blaðinu Diario Sport þegar Abidal var að ræða endalok þjálfarans Ernesto Valverde hjá Barcelona.

Ernesto Valverde var látinn fara um miðjan janúar og Quique Setién var ráðinn í staðinn. Eric Abidal hélt því fram að sumir leikmenn Barcelona hafi ekki verið að leggja sig fram fyrir Valverde.



„Margir leikmenn voru ekki ánægðir eða að leggja sig fram og það voru samskiptavandamál innan liðsins,“ sagði Eric Abidal meðal annars í viðtalinu við Diario Sport.

Lionel Messi svaraði: „Þegar þú ræðir leikmenn opinberlega þá verður þú að nefna nöfn því annars liggja allir undir grun,“ sagði Lionel Messi.

Eric Abidal er fyrrum leikmaður Barcelona og lék lengi við hlið Lionel Messi eða á árunum 2007 til 2013. Hann kom síðan aftur til Barcelona eftir að skórnir fóru upp á hillu og var ráðinn sem íþróttastjóri félagsins í júní 2018.

„Samkomulag þjálfarans og klefans hafa alltaf verið gott hjá félaginu en það eru hlutir sem ég sem fyrrum leikmaður gat þefað uppi. Ég sagði félaginu mína skoðun og við tókum ákvörðun um Valverde,“ sagði Eric Abidal.

Messi svaraði á Instagram og kom mörgum á óvart með að leggja af stað í þá herferð. „Ég er ekki hrifinn af því að gera svona hluti en það er mín skoðun að fólk verður að taka ábyrgð á þeirra eigin starfi og sínum ákvörðunum,“ skrifaði Lionel Messi á Instagram.



Lionel Messi hefur spilað allan sinn feril hjá Barcelona en mál sem þetta ýtir undir þær sögusagnir að hann hafi áhuga á að prófa eitthvað nýtt áður en ferlinum lýkur. Eric Abidal tók það samt fram í viðtalinu að hann héldi að Messi væri ánægður hjá Barcelona og það væru í gangi viðræður um nýjan samning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×