Það er mikill áhugi á leik Liverpool og Shrewsbury Town í enska bikarnum í kvöld þrátt fyrir að Liverpool tefli bara fram varaliði sínu.
Liverpool ákvað að bjóða helmingsafslátt á miðum á leikinn og það hafði góð áhrif því miðarnir á leikinn seldust upp.
Liverpool sagði frá því á Twitter-síðu sinni að miðar á leikinn séu uppseldir og biðlar til þeirra sem eiga ekki miða á leikinn að koma ekki á Anfield.
Tickets for tonight's #EmiratesFACup tie with @shrewsweb are sold out. Supporters not in possession of a ticket are urged not to travel to Anfield.
— Liverpool FC (@LFC) February 4, 2020
Supporters in our Auto Cup Scheme are advised to check that they have a seat processed for the clash.
More information
Liverpool komst í 2-0 í fyrri leiknum en Shrewsbury Town tókst að jafna metin í 2-2 og tryggja sér annan leik.
Sá leikur var settur á í vetrarfríi Liverpool liðsins og Jürgen Klopp tilkynnti strax eftir fyrri leikinn að leikmenn aðalliðsins tækju ekki þátt í þessum leik í kvöld.
Liverpool liðið verður því byggt upp á ungum leikmönnum úr 23 ára liðinu og Neil Critchley mun stýra liðinu í kvöld.
Þetta verður annar leikurinn sem Neil Critchley stýrir Liverpool á leiktíðinni því hann var líka við stjórnvölinn á móti Aston Villa í enska deildabikarnum þegar aðalliðið var komið til Katar til að taka þátt í heimsmeistarakeppni félagsliða.
Liðið sem vinnur leikinn í kvöld mætir Chelsea á Stamford Bridge í sextán liða úrslitum keppninnar.