Skoðun

Nýtt vandamál: Hann hreyfist!

Sigríður Á. Andersen skrifar

Hví segja vinstri menn það ekki bara hreint út að þeir vilji banna bíla? Eftir margra mánaða tafir vegna skorts á kynningu fyrir íbúum í upphafi veittu borgaryfirvöld Vegagerðinni loks framkvæmdaleyfi nýverið til að bæta gatnamót Bústaðarvegar og Kringlumýrarbrautar. Um er að ræða gerð nýrrar fráreinar og breikkun rampa á Kringlumýrarbraut ásamt breytingu á akstursleið inn á rampann frá Bústaðavegi og uppsetningu nýrra umferðarljósa. Allt er þetta hefðbundið viðhald og bætur á gatnakerfi okkar Reykvíkinga sem eykur öryggi og dregur úr töfum og þar með mengun. En leyfið var ekki veitt án ramakveins. Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata í skipulags- og samgönguráði fagna vissulega betri hljóðvist sem þessar framkvæmdir hafa í för með sér en bóka jafnframt:

„Hins vegar er ljóst á tímum loftslagsbreytinga að ekki er í boði að halda áfram að setja meira fjármagna í framkvæmdir sem skapa aukið rými fyrir bílaumferð þar sem þær framkvæmdir munu bæði skapa aukna bílaumferð og auka losun á CO2 frá samgöngum. Innan fáeinna ára verða umferðartafirnar á Bústaðavegi orðnar jafn langar og þær voru fyrir framkvæmdina og því er ekki um langtímalausn að ræða.“

Þetta viðhorf minnir svolítið á innkaupastjóra í verslun sem telur það ekki ómaksins vert að panta inn vinsælar vörur því þær hverfi svo skjótt úr hillunum.

En þetta er ekki tilfallandi viðhorf meðal vinstri manna. Í þingræðu í haust sagði Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar:

„Mig langar að nefna hér orkuskipti í samgöngum af því að fólk talaði dálítið um þau. Þau eru gríðarlega mikilvæg og ótrúlega stór hluti af þessu en samt mun hinn vondi eiginleiki einkabílsins verða eftir, sem er ekki orkugjafinn heldur hreyfanleiki bílsins.“

Það er reyndar ekki rétt hjá Loga að samgöngur séu með „ótrúlega stóran“ hluta af losun gróðurhúsalofttegunda. Það er hvorki tilfellið hér á landi né annars staðar. Hér eru samgöngur á landi (bílar, rútur, strætisvagnar) með um 6% heildarlosunar CO2. Hið rétta er því að miðað við umræðuna eru bílar með ótrúlegan lítinn hluta í losuninni. Það er hins vegar sjálfsagt að gera þær kröfur að það dragi úr neikvæðum fylgifiskum bíla eins og loftmengun. Það hefur líka verið að gerast jafnt og þétt undanfarna áratugi með betri vélum, hreinna eldsneyti og nýjum orkugjöfum. En nú lýsir formaður Samfylkingarinnar yfir áhyggjum af „hreyfanleika bílsins.“ Það að bíllinn hreyfist telur hann vondan eiginleika. Jafnvel verri en útblásturinn.

Það er auðvitað ekki við góðu að búast í umferðinni þegar formaður stjórnmálaflokksins sem stýrir samgöngumálum í Reykjavík telur það „vondan eiginleika“ að bíll hreyfist.

Höfundur er þingmaður.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×