Hjörtur Valgeirsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandshótela.
Í tilkynningu frá Íslandshótelum kemur fram að Hjörtur hafi lokið BA í hótelstjórnun árið 2003 í South Bank University Business School, Englandi og útskrifast með MBA úr Vlerick Management School í Belgíu árið 2010.
„Hjörtur hefur starfað við hótelstörf frá árinu 1998 og meðal annars stýrt Eddu hótelunum fyrir Icelandair Hotels. Á árunum 2011-2014 starfaði hann í Kína við veitingarekstur og gæðastjórnun.
Hjörtur var í stjórnendateymi við innleiðingu á fyrsta Hilton hóteli Íslands á Hilton Reykjavík Nordica þar sem hann starfaði í 3 ár. Einnig hefur Hjörtur starfað á The Halkin London og Crowne Plaza London.
Á árunum 2014 – 2016 starfaði Hjörtur sem hótelstjóri á Centerhotel Þingholti. Frá árinu 2016 hefur Hjörtur starfað sem hótelstjóri á Fosshótel Reykjavík, stærsta hóteli landsins og stýrt þar að auki veitingastöðunum Haust Restaurant og Bjórgarðinum,“ segir í tilkynningunni.
Íslandshótel á og rekur sautján hótel með yfir 1.800 gistirými út um allt land auk funda- og ráðstefnuaðstöðu. Þetta eru Grand Hótel Reykjavík sem er stærsta ráðstefnu hótel landsins, Hótel Reykjavík Centrum og fimmtán Fosshótel víðs vegar um land.