Það vakti athygli að enginn fulltrúi Vals sat ársþing KSÍ sem fór fram í Ólafsvík um helgina. Margir settu spurningarmerki við þetta en nú er komin niðurstaða í málið.
Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdarstjóri Aftureldingar og verðandi framkvæmdarstjóri Grindavíkur, vakti athygli á málinu á Twitter-síðu sinni um helgina.
Athyglisvert að það er enginn fulltrúi frá Knattspyrnufélaginu Val á ársþingi KSÍ í Ólafsvík.#fotboltinet
— Jón Júlíus Karlsson (@JonJKarlsson) February 22, 2020
Edvard Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, útskýrði fjarveru Valsmanna á Facebook-síðu stuðningsmanna Vals.
„Það er því miður rétt að enginn fulltrúi frá knattspyrnudeild Vals var á nýliðnu ársþingi KSÍ sem haldið var í Ólafsvík. Valur skráði 4 aðalfulltrúa og 3 varafulltrúa með kjörbréfi sem skilað var inn til KSÍ þann 14. febrúar en vegna mikilla forfalla fór svo að enginn fulltrúi okkar komst ekki og tókst að fá aðra í þeirra stað,“ sagði Börkur.
„Að sjálfsögðu stóð alltaf til að fulltrúar Vals sæktu þingið nú sem endranær en því miður fór sem fór. Að sjálfsögðu þykir knattspyrnudeild Vals þetta leiðinlegt enda sitja í stjórninni fólk sem hefur verið í sjálfboðaliði fyrir félagið áratugum saman og ávallt sótt umrætt þing fyrir hönd Vals.“
Börkur segir ennfremur að Valsmenn geti vel við unað við þær ákvarðanir sem hafa verið teknar um helgina, í þeirra fjarveru.
„Niðurstöður á annars ágætu þingi voru í samræmi við væntingar og vilja Valsmanna,“ bætti Börkur við.