Aðalvarðstjóri í almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra segir þá stund runna upp að Íslendingar hætti öllum handaböndum og kossaflensi vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson í samtali við Vísi að loknum stöðufundi almannavarna með sóttvarnalækni vegna frétta sem berast frá Tenerife.
Greint hefur verið frá því að ítalskur læknir sem var á Tenerife sé smitaður af Covid-19 sjúkdómnum og hafi verið á hóteli á Tenerife sem Íslendingar voru á. Um er að ræða hótelið H10 Costa Adeje Palace-hótelið en þar eru sjö Íslendingar sagðir í sóttkví.
Rögnvaldur segir borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins nú vinna að því að fá þessar fregnir staðfestar. Framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Vita sagði við Vísi fyrr í morgun að sjö Íslendingar væru í sóttkví á hótelinu.
Sjá einnig: Sjö Íslendingar í sóttkví á Tenerife
Ekki hefur verið gripið til sérstakra ráðstafana á Keflavíkurflugvelli að sögn Rögnvaldar umfram það að huga að handþvotti og almennu hreinlæti til að forðast smit. Meðan formleg staðfesting fæst ekki á fréttunum þá verður ekki gripið til frekari viðbragða, en það gæti breyst eftir því sem líður á daginn.
Rögnvaldur segir faraldurinn kominn á þann stað að nú ættu Íslendingar að hætta öllum handaböndum og kossaflensi. Handþvottur ætti að vera reglulegur ásamt öðrum þrifum meðan þetta gengur yfir.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hvetur Íslendingar á Ítalíu og Tenerife til að fylgjast með fyrirmælum stjórnvalda á svæðinu og jafnframt fylgjast með fréttum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu vegna fregna af nýjum tilfellum COVID-19 veirunnar.
„Íslendingar erlendis geta skráð sig í gagnagrunn borgaraþjónustunnar til að láta vita af sér og fá sendar upplýsingar ef aðstæður breytast. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið help@mfa.is. Utanríkisráðuneytið gefur almennt ekki út ferðaviðvaranir en bendir í staðinn á ferðaviðvaranir utanríkisráðuneyta grannríkjanna, sérstaklega Norðurlandanna og Bretlands. Sóttvarnalæknir ræður ferðamönnum frá ónauðsynlegum ferðum til Kína og ítölsku héraðanna Lombardia, Veneto, Emilia-Romagna og Piedmont.“
Leiðbeiningar til almennings
Handhreinsun og hreinlæti kringum augu, nef og munn ásamt öruggri meðhöndlun fæðu eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum í þeim tilgangi að draga úr líkum á alvarlegum veikindum.
Kórónuveiran sem veldur Covid-19 sjúkdómnum hagar sér í sumu eins og inflúensa, einkenni eru svipuð og smitleiðir áþekkar.
Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. Kórónaveiran Novel getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.-8. degi veikinda.
Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmar +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.
Þessir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma.