Lífið

Ástin skorar hærra hjá þjóðinni en enski boltinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Vinsældir þáttanna á Íslandi eru langt því frá að vera einsdæmi.
Vinsældir þáttanna á Íslandi eru langt því frá að vera einsdæmi. Getty/Rick Rowell

Raunveruleikaþættirnir Love Island og Bachelor hafa notið gífurlegra vinsælda hér á landi og bera áhorfstölur þess sterk merki.

Síminn, sem sýnir þættina og er einnig rétthafi ensku úrvalsdeildarinnar, upplýsti um það í dag að mun meira áhorf sé á umrædda þætti en á enska boltann.

Eins og alþjóð ætti að vita eiga raunveruleikaþættirnir tveir það sameiginlegt að fjalla um fólk sem kýs að leita ástarneistans fyrir framan alsjáandi auga sjónvarpsmyndavélarinnar.

Fram kemur í ársuppgjöri Símans sem var birt í dag að metáhorf hafi verið á efni í Sjónvarpi Símans Premium á síðasta ári.

„Vinsælast er íslenskt efni, barnaefni og erlent raunveruleikasjónvarp um ungt fólk í leit að ástinni.“

Það vakti athygli Elvars Inga Möllers, starfsmanns Arion banka, að enski boltinn væri ekki þar á meðal en um er að vinsælustu íþróttadeild heims.

Síminn staðfesti í kjölfarið að hér væri aldeilis ekki um neina villu að ræða.

„Áhorfstölur af Love Island og Bachelor eru af stærðargráðu sem að stórleikir í [ensku úrvalsdeildinni] munu seint ná.“

Vinsældir þáttanna hér á landi eru langt því frá að vera einsdæmi en Love Island hefur slegið áhorfsmet í heimalandi sínu Bretlandi og mælst vinsælasta sjónvarpsefnið þar hjá ungu fólki.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri afþreyingarmiðla Símans, hefur áður vakið athygli á vinsældum þáttanna og sagt að það væri „full ástæða til að óttast framtíð okkar sem þjóðar“ í ljósi þessa.

Það má hver deila um það en þessar fregnir munu eflaust gleðja þá sem vilja trúa því að ástin sigri jú allt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.