Sóttvarnarlæknir segir að ferðamálaráðherra hafi ekki farið að leiðbeiningum sínum varðandi fjarlægðarmörk. Hún hafi hins vegar ekki brotið sóttvarnarreglur heilbrigðisráðherra. Von sé á skriflegum leiðbeiningum næstu daga.
Um helgina birtist mynd af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra með vinkonum sínum þar sem tveggja metra reglan var ekki virt. Sóttvarnarlæknir sagði í fréttum okkar í gær að ráðherra hafi ekki brotið sóttvarnarreglur.
„Ég tel ekki að hún hafi brotið reglurnar og reglugerðina eins og hún stendur en ég tel að hún hafi ekki farið eftir þeim leiðbeiningum sem sóttvarnalæknir var búinn að gefa út,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þarna sé því um tvennt að ræða annars vegar reglur heilbrigðisráðuneytisins og hins vegar leiðbeiningar sóttvarnalæknis.
„Þar er kveðið á um skyldu rekstraraðila til að tryggja fólki sem ekki býr á sama heimili tveggja metra regluna. Hins vegar eru leiðbeiningar sóttvarnalæknis á þá leið að við biðlum til allra að fara eftir tveggja metra reglunni en undanskiljum þá sem búa á sama heimili og reyndar hef ég líka talað um óskylda og skylda aðila,“ segir Þórólfur.
„Það er það sem hefur valdið ruglingi og það er það sem við þurfum að skýra aðeins betur.“
Tveggja metra reglan tekið breytingum frá 31. júlí
En hvað hefur verið sagt um tveggja metra regluna síðan hún tók gildi á ný þann 31. júlí.
„Þar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði tveggja metra reglan viðhöfð á milli einstaklinga,“ sagði Svandís Svavarsdóttir á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar þann 30. júlí þar sem nýjar reglur voru kynntar.
„Þar af leiðandi er það ekki þessi tveggja metra regla sem við höfum verið að tala um, að fólk sem er ekki mjög náið eða deilir ekki sama heimili virði þá tveggja metra reglu,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi vegna kórónuveiru þann 7. ágúst.
„En áfram eru persónubundnar og einstaklingsbundnar sóttvarnir langöflugasta tækið til að berja niður þessa veiru og það hefur ekki breyst. Hertar aðgerðir á landamærum koma aldrei í staðin fyrir,“ sagði Þórdís Kolbrún á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar þann 14. ágúst.