Erlent

Meintur öfgamaður reyndi að aka mótorhjól niður í Berlín

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá hvar rannsakendur hafa teiknað á götuna vegna árásarinnar.
Hér má sjá hvar rannsakendur hafa teiknað á götuna vegna árásarinnar. EPA/FILIP SINGER

Saksóknarar í Þýskalandi segja að mögulega hafi röð bílslysa sem 30 ára gamall maður frá Írak olli á hraðbraut í Berlín í gær verið árás öfgaíslamista. Sex slösuðust þegar maðurinn ók á nokkur farartæki á hraðbrautinni og virtist hann reyna sérstaklega að keyra á mótorhjól. Þrír eru í alvarlegu ástandi og þar af einn í lífshættu.

Samkvæmt frétt BBC er verið að rannsaka árásina sem verk pólitísks, eða trúarlegs öfgamanns en einnig þykir mögulegt að maðurinn eigi við geðræn vandamál að stríða.

Maðurinn á yfir höfði sér þrjár ákærður fyrir manndrápstilraunir.

Eftir að bíll mannsins stöðvaðist segja vitni að hann hafi kallað Allahu Akbar (Guð er mikill) og hótað því að hann væri með sprengju. Hin meinta árás leiddi einnig til þess að loka þurfti einni helstu umferðaræð Berlínar í gær. Engin sprengja fannst þó á vettvangi.

Maðurinn er sagður heita Samrad A og ku hann hafa haldið til í úrræði fyrir flóttafólk.

Eftir að hann sagðist vera með sprengju, tók hann út bænateppi og lagðist á bænir. Lögregluþjónn af arabískum uppruna nálgaðist manninn á endanum, ræddi við hann og handtók hann, samkvæmt Der Tagesspiegel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×