Fótbolti

18 dagar í Rúmeníuleikinn: Nýr liðsfélagi Gumma Tóta skoraði síðasta mark Rúmena í A-landsleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandru Mitrita í leik með New York City á dögunum.
Alexandru Mitrita í leik með New York City á dögunum. Getty/Emilee Chinn

Rúmenar skoruðu ekki í tveimur síðustu leikjum sínum í undankeppni EM 2020 en síðasta mark liðsins í landsleik kom í leik á móti Lars Lagerbäck og lærisveinum hans í norska landsliðinu í október síðastliðnum.

Ísland tekur á móti Rúmeníu á Laugardalsvellinum í undanúrslitaleik í umspili um laust sæti á EM 2020 og sigurvegarinn kemst í hreinan úrslitaleik um sæti á EM. Vísir telur niður í leikinn með því að skoða betur þennan stærsta heimaleik í sögu íslenska landsliðsins eða líta til baka á söguleg tengsl þjóðanna á knattspyrnuvellinum.

Rúmenar gerðu þá 1-1 jafntefli við Norðmenn eftir að hafa komist yfir á 62. mínútu með marki AlexandruMitrita. Alexander Sörloth tryggði Norðmönnum jafntefli með marki í uppbótatíma.

Eftir þetta jafntefli urðu Rúmenar að sætta sig við tap í leikjum sínum á móti Svíum (0-2) og Spánverjum (0-5) í nóvember.

Sá sem skoraði síðasta mark Rúmena í A-landsleik, AlexandruMitrita, er 25 ára framherji sem á að baki eitt tímabil með bandaríska MLS-liðinu NewYorkCity. Hann skoraði 12 mörk í 30 leikjum í MLS-deildinni á sinni fyrstu leiktíð.

Markið hans AlexandruMitrita varð hans annað með landsliðinu en hann skoraði einnig í leiknum á undan á móti Færeyjum í Þórshöfn.

AlexandruMitrita skoraði markið sitt eftir einleik upp hægri kantinn og með laglegu skoti rétt fyrir utan vítateiginn.

Mitrita var að fá íslenskan liðsfélaga hjá NewYorkCity fyrir komandi tímabil þegar Selfyssingurinn Guðmundur Þórarinsson samdi við MLS-liðið á dögunum.

Guðmundur Þórarinsson sem hefur hingað til spilað á Norðurlöndunum (Danmörku, Svíþjóð og Noregi) en ákvað að stökkva á tilboð frá bandaríska liðinu.

Ísland og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en sérstakur upphitunarþáttur fyrir leikinn verður á dagskrá 16. mars á Stöð 2 Sport.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur mörk sem AlexandruMitrita skoraði fyrir NewYorkCity á 2019 tímabilinu og þarna er greinilega hæfileikaríkur leikmaður á ferðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×