Lífið

Daði og Selma troða upp í Stokkhólmi í kringum Melodifestivalen

Stefán Árni Pálsson skrifar
Daði Freyr og Selma Björnsdóttir koma bæði fram um helgina í Stokkhólmi.
Daði Freyr og Selma Björnsdóttir koma bæði fram um helgina í Stokkhólmi.

Svíar velja sitt framlag í Eurovision á laugardagskvöldið þegar lokakvöld Melodifestivalen verður haldið.

Margir vilja meina að Melodifestivalen sé álíka flott keppni og sjálf Eurovisionkeppnin en Svíarnir eru oftast mjög sterkir í Eurovision-keppninni.

Einnig eru það oftast Svíar sem koma að Eurovision á einn eða annan hátt og hafa undanfarin ár aðstoðað heimamenn við það að halda keppnina en hún verður að þessu sinni haldin í Rotterdam í maí.

Myndband Daða Freys og Gagnamagnsins við lagið Think about things má sjá að neðan.

Svokallaður Euroklúbbur verður starfræktur í Stokkhólmi um helgina, bæði á föstudagskvöld og laugardagskvöld.

Daði Freyr Pétursson mun koma fram á Euroklúbbnum á föstudagskvöldið og síðan verður Selma Björnsdóttir aðal listamaðurinn sem kemur fram á laugardagskvöldinu á klúbbnum.

Daði Freyr og Gagnamagnið keppa í Eurovision fyrir Íslands hönd í maí og stígur hópurinn á svið 14. maí á seinna undankvöldinu í Rotterdam. 

Myndbandið við lagið All out of luck sem Selma flutti 1999 má sjá að neðan. Lagið hafnaði sem kunnugt er í öðru sæti í Jerúsalem.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×