Enski boltinn

Maðurinn sem stýrði Liverpool á móti Aston Villa og Shrewsbury er farinn frá félaginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neil Critchley kom Liverpool áfram í bikarnum en hætti hjá félaginu áður en kom að næsta leik í keppninni. Hér fagnar hann sigri á móti Shrewsbury Town.
Neil Critchley kom Liverpool áfram í bikarnum en hætti hjá félaginu áður en kom að næsta leik í keppninni. Hér fagnar hann sigri á móti Shrewsbury Town. Getty/James Baylis

Tveir menn hafa stýrt Liverpool liðinu á þessu tímabili og annar þeirra hefur nú yfirgefið félagið. Neil Critchley er hættur störfum sem þjálfari 23 ára liðs Liverpool.

Liverpool segir frá því á heimasíðu sinni að Neil Critchley hafi ráðið sig sem aðalþjálfara hjá C-deildarliðinu Blackpool. Hann stökk á tækifærið að þjálfa hjá aðalliði eftir að hafa verið með yngri lið í langan tíma.

Hinn 41 árs gamli Neil Critchley hefur starfað hjá Liverpool í sex og hálft ár eða síðan að hann tók við undir átján ára liðinu í september 2013. Hann var síðan gerður að þjálfara 23 ára liðs félagsins fyrir 2017-18 tímabilið.



Neil Critchley stýrði Liverpool liðinu í deildabikarleik á móti Aston Villa í desember og í bikarleik á móti Shrewsbury Town á Anfield í byrjun febrúar. Í báðum tilfellum var Liverpool liðið skipað ungum leikmönnum í 23 ára liðinu þar sem aðallið Liverpool var ekki á staðnum.

Í leiknum í desember þá var Jürgen Klopp með aðalliðið á heimsmeistarakeppni félagsliða í Katar en í febrúar þá var leikurinn settur á dag þar sem Klopp var búinn að ákveða að aðalliðið væri í vetrarfríi. Liverpool tapaði 5-0 á móti Aston Villa en vann 1-0 sigur á Shrewsbury Town.

Alex Inglethorpe, yfirmaður akademíunnar hjá Liverpool, sagðist vera vonsvikinn að horfa á eftir Critchley en um leið segir hann að þetta sýnir það að þjálfarar yngri liða félagsins eigi líka möguleika á því að komast inn í aðalliðin eins og leikmennirnir þó svo að það sé hjá öðrum félögum.



Steven Gerrard, Michael Beale og Mike Marsh hafa allir fengið tækifæri hjá öðrum félögum eftir að hafa stýrt yngri liðum Liverpool.

Pepijn Lijnders, áður aðstoðarmaður hjá aðlliðinu, mun nú taka við þjálfun 23 ára liðsins hjá Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×