Stjörnumennirnir Eyjólfur Héðinsson og Alex Þór Hauksson hafa gefið flestar sendingar að meðaltali af öllum leikmönnum Pepsi Max deildar karla í sumar.
Boltinn fer greinilega í gegnum miðjuna í leikjum Stjörnunnar í Pepsi Max deild karla í sumar því þar spila þeir tveir leikmenn sem hafa gefið flestar sendingar á hverjar 90 mínútur í deildinni til þessa.
Eyjólfur Héðinsson er sá leikmaður sem hefur átt flestar sendingar í deildinni eða 63,6 að meðaltali á hverjar níutíu mínútur. 84 prósent af sendingum hans hafa heppnast.
Alex Þór Hauksson, liðsfélagi Eyjólfs hjá Stjörnunni, er síðan með 58,6 sendingar að meðaltali á hverjar níutíu mínútur og er aðeins á undan Víkingnum Kára Árnasyni sem er í þriðja sætinu með 57,95 sendingar á hvern heilan leik.
Víkingar eiga aftur á móti flesta leikmenn á topp tíu listanum en þessar tölur frá Wyscout tölfræðiveitunni eru fyrir leik Víkinga og Fjölnis í gær. Þá voru þeir Júlíus Magnússon, Sölvi Geir Ottesen og Viktor Örlygur Andrason allir meðal tíu efstu manna.
Eyjólfur Héðinsson er annars mjög áberandi á sendingalistum. Hann hefur gefið flestar sendingar inn á síðasta þriðjunginn og er einnig með flestar sókndjarfar sendingar. Alex er í öðru sæti á fyrri listanum en í þriðja sæti yfir sókndjarfar sendingar þar sem Blikinn Damir Muminovic er á milli þeirra.
Meðal annarra sem eru á toppnum í sendingatölfræði eru Stjörnumaðurinn Hilmar Árni Halldórsson sem átt flestar lykilsendingar sem skapa skotfæri, Valsmaðurinn Aron Bjarnason sem hefur átt flestar langar sendingar og KR-ingurinn Atli Sigurjónsson sem er með flestar fyrirgjafir.
Hilmar Árni hefur einnig tekið flest horn allra leikmanna og KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson hefur tekið flestar aukaspyrnur á sóknarvelli.
Stjörnumenn verða í eldlínunni í kvöld þegar liðið heimsækir Fylki í Árbæinn. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport þar sem útsendingin hefst klukkan 18.45. Á sama tíma verður leikur Gróttu og Breiðabliks sýndur beint á Stöð 2 Sport 3. Eftir leikina verða síðan Pepsi Max Tilþrifin á Stöð 2 Sport.
Flestar sendingar í Pepsi Max deild karla til þessa:
(Sendingar á hverjar 90 mínútur - Wyscout)
- 1. Eyjólfur Héðinsson, Stjörnunni 63,59
- 2. Alex Þór Hauksson, Stjörnunni 58,57
- 3. Kári Árnason, Víkingi 57,95
- 4. Damir Muminovic, Breiðabliki 57,62
- 5. Sebastian Hedlund, Val 57,24
- 6. Júlíus Magnússon, Víkingi 54,32
- 7. Guðmundur Kristjánsson, FH 54,23
- 8. Sölvi Geir Ottesen, Víkingi 52,94
- 9. Lasse Petry, Val 49,95
- 10. Viktor Örlygur Andrason, Víkingi 48,75
-
Flestar sendingar inn á síðasta þriðjunginn í Pepsi Max deild karla til þessa:
- (Sendingar á hverjar 90 mínútur - Wyscout)
- 1. Eyjólfur Héðinsson, Stjörnunni 12,81
- 2. Alex Þór Hauksson, Stjörnunni 11,79
- 3. Lasse Petry, Val 10,48
- 4. Haukur Páll Sigurðsson, Val 10,23
- 5. Björn Daníel Sverrisson, FH 10,09
-
Flestar sókndjarfar sendingar í Pepsi Max deild karla til þessa:
- (Sendingar á hverjar 90 mínútur - Wyscout)
- 1. Eyjólfur Héðinsson, Stjörnunni 12,97
- 2. Damir Muminovic, Breiðabliki 12,78
- 3. Alex Þór Hauksson, Stjörnunni 12,74
- 4. Kári Árnason, Víkingi 12,31
- 5. Hjörtur Logi Valgarðsson, FH 11,22