Innlent

Allt of margir á einum skemmtistað og erill hjá lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Einn aðili var handtekinn fyrir líkamsárás og heimilisofbeldi í Hafnarfirði og annar í Mosfellsbæ. Báðir voru látnir gista fangaklefa í nótt.
Einn aðili var handtekinn fyrir líkamsárás og heimilisofbeldi í Hafnarfirði og annar í Mosfellsbæ. Báðir voru látnir gista fangaklefa í nótt. Vísir/Vilhelm

Töluverður erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Rúmlega hundrað mál voru skráð í dagbók lögreglu frá fimm í gær til fimm í morgun. Lögregluþjónar vitjuðu alls tólf skemmtistaða í gær, eins og hefur verið gert að undanförnu, vegna eftirlits með sóttvörnum.

Af þeim var allt til fyrirmyndar á níu stöðum. Samkvæmt dagbók lögreglu var starfsmönnum tveggja staða gert að gera úrbætur á sætaskipan, þar sem tveggja metra reglan var ekki virt. Á einum stað höfðu starfsmenn þó misst tök á mannfjölda og var þeim gert að bæta úr því tafarlaust.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir ölvunar og/eða fíkniefnaakstur og sömuleiðis var nokkuð um að kvartað var vegna hávaða í heimahúsum.

Einn aðili var handtekinn fyrir líkamsárás og heimilisofbeldi í Hafnarfirði og annar í Mosfellsbæ. Báðir voru látnir gista fangaklefa í nótt.

Lögreglan fékk einnig tilkynningu um að tveir menn hefðu ráðist á einn í miðbænum. Sá sem fyrir árásinni varð var lítils háttar meiddur en árásarmennirnir voru farnir þegar lögregluþjóna bar að garði.

Einnig var brotist inn í fyrirtæki í hverfi 104 og í öðru máli voru afskipti höfð af konu sem stal úr verslun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×