Innlent

Slasaður eftir að hafa hand­leikið sprengju í Heið­mörk

Sylvía Hall skrifar
Sprengjan fannst í rjóðri við göngustíg. 
Sprengjan fannst í rjóðri við göngustíg.  Vísir/vilhelm

Slys varð við Heiðmerkurveg rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöld þegar maður slasaðist eftir að hafa fundið sprengju í rjóðri við göngustíg í Heiðmörk. Þegar maðurinn átti við sprengjuna kom hár hvellur og slasaðist hann mikið á hendi.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að um erlenda einstaklinga hafi verið að ræða og tungumálaörðugleikar hafi flækt samskipti en vitni hafi lýst því að sprengjan hafi fundist á svæðinu. Maðurinn sem slasaðist var fluttur á bráðadeild til aðhlynningar.

Um sexleytið í gærkvöldi óskaði leigubílstjóri í Vesturbæ Reykjavíkur eftir aðstoð lögreglu vegna farþega sem neitaði að greiða fyrir farið. Lögregla fór á vettvang og bankaði heima hjá viðkomandi sem kom ekki til dyra. Lögregla hefur þó fengið upplýsingar um nafn viðkomandi.

Þá var tilkynnt um líkamsárás klukkan ellefu í gærkvöld og voru tveir menn handteknir og vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Árásarþoli var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild en ekki er vitað um meiðsli hans að svo stöddu.

Lögregla hafði afskipti af nokkrum ökumönnum í gærkvöldi og í nótt. Þrír ökumenn voru stöðvaðir miðsvæðis vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og ítrekaðan akstur eftir að hafa verið sviptir ökuréttindum. Einn ökumaður var stöðvaður í Hafnarfirði eftir að hafa ekið yfir á rauðu ljósi og reyndist sá hafa verið sviptur ökuréttindum einnig.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í Árbæ í gærkvöldi og í nótt. Eru þeir báðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá handtók lögregla ölvaðan mann í sama hverfi í nótt eftir að hann hafði verið að valda fólki ónæði með hávaða og látum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×