Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, varð í dag þaulsetnasti forsætisráðherrann í sögu Japans, sé litið til óslitinnar tíðar í embætti.
Abe hefur nú setið 2.799 daga í röð í embætti og tók hann þar með fram úr frænda sínum, Eisaku Sato sem lét af embætti árið 1972.
Abe var fluttur á sjúkrahús í morgun, en hann vildi ekki greina frá hvað amaði að er hann ræddi stuttlega við fjölmiðla fyrir utan. Hann þakkaði þeim þó sem höfðu stutt hann, jafnvel á „erfiðustu tímum“.
Forsætisráðherrann sagðist hafa fengið niðurstöður úr fyrstu prófum í dag og að hann muni nú gangast undir frekari próf, án þess þó að tilgreina hvers eðlis þau væru.
Vitað er að Abe glímir við sáraristilbólgu, langvinnum bólgusjúkdómi í þörmum. Sjúkdómurinn varð til þess að hann sagði af sér sem forsætisráðherra eftir fyrri tímabil hans í embætti, 2006 til 2007.
Abe tók svo aftur við forsætisráðherraembættinu árið 2012, en fimm höfðu þá gegnt embættinu í millitíðinni.