Innlent

Ákærður fyrir að hrinda konu fram af svölum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Atvikið átti sér stað í Hólahverfinu í Breiðholti í september í fyrra.
Atvikið átti sér stað í Hólahverfinu í Breiðholti í september í fyrra. Vísir/Vilhelm

Tæplega fertugur karlmaður hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í Hólahverfinu í Breiðholti þann 16. september í fyrra. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá ákærunni. 

Fjallað var um árásina í fréttum í fyrra en í ákæru segir að maðurinn hafi veist að konu, sem er á þrítugsaldri, með ofbeldi og hent henni fram af svölum í íbúð hans á 2. hæð í fjölbýlishúsi.

Konan slasaðist alvarlega við fallið en var þó ekki í lífshættu. Í ákæru á hendur karlmanninum kemur fram að konan hlaut heilahristing auk þess sem neðri kjálki hennar hafi brotnað á tveimur stöðum. Mjaðmabein hennar brotnaði og tennur sömuleiðis.

Karlmaðurinn var í gæsluvarðhaldi vegna málsins í fjórar vikur en sleppt í framhaldinu. Maðurinn var á skilorði þegar hann var handtekinn.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu í október í fyrra að karlinn og konan hefðu þekkst. Vitni hefðu orðið að því sem fram fór og lögregla hefði rætt við þau.

Konan fer fram á rúmlega 7,5 milljónir króna í skaðabætur frá árásarmanninum.

Málið verður þingfest þann 1. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×