Íslenski boltinn

Heimir Hallgríms með fimm mörk í stærsta sigrinum í sögu Íslandsmótsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson frá tíma sínum sem þjálfari íslenska landsliðsins.
Heimir Hallgrímsson frá tíma sínum sem þjálfari íslenska landsliðsins. Getty/VI Images

ÍH vann 25-1 sigur á Afríku í 4. deild karla í knattspyrnu á dögunum en þetta er samt ekki Íslandsmet. Metið er enn í eigu Smástundar frá Vestmannaeyjum.

24 marka sigur ÍH-inga er vissulega stærsti sigur Hafnarfjarðarfélagsins á Íslandsmóti því liðið hafði mest áður unnið 15-1 og 14-0 á Íslandsmótinu.

Félagsmetið var því slegið með glæsibrag en Íslandsmetið stendur enn.

Íslandsmetið er í eigu Knattspyrnufélagsins Smástundar frá Vestmannaeyjum og er orðið 24 ára gamalt.

Smástundarmenn setti metið með því að vinna 31-1 sigur á Skautafélagi Reykjavíkur út í Eyjum 27. júlí 1996.

Smástundarliðið skoraði samtals 70 mörk í 12 leikjum það sumar og komu því 44 prósent marka liðsins í þessum eina leik.

Leikmenn Skautafélagsins komu bara tíu til Eyja og þá meiddist einn leikmaður liðsins snemma leiksins. Liðið var því níu á móti ellefu stóran hluta leiksins.

Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, fór á kostum í þessum sögulega leik og skoraði fimm mörk. Hann var samt bara þriðji markahæsti maður liðsins í leiknum.

Óðinn Sæbjörnsson skoraði nefnilega átta mörk í leiknum og Rúnar Vöggsson var með sex mörk.

Alls voru fimm leikmenn liðsins með þrennu því Magnús Steindórsson skoraði fjögur mörk og Emil Hadzic var með þrjú mörk.

Heimir Hallgrímsson var þarna bara 19 ára gamall, og hafði skipt yfir í Smástund frá ÍBV í júnímánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×