Erlent

Ísland sleppur við rauða listann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fólk gengur eftir Þúsaldarbrúnni í Lundúnum á dögunum.
Fólk gengur eftir Þúsaldarbrúnni í Lundúnum á dögunum. Getty/Yui Mok

Bresk stjórnvöld ákváðu í gær að setja þrjú ný lönd á hinn svonefnda rauða lista, sem kveður á um að ferðamenn sem þaðan koma til Bretlands þurfi að sæta 14 daga sóttkví.

Um er að ræða Sviss, Tékkland og Jamaíka, en Ísland er ekki á listanum eins og hugsanlegt var um tíma. Bresk yfirvöld miða við að nýgengi smita í löndunum sé 20 eða meira. Þessi tala stóð í 18,8 á Íslandi í gær.

Í Sviss hefur skráðum tilfellum Covid-19 fjölgað mjög undanfarið. Í Tékklandi fjölgaði tilfellum um 25 prósent í síðustu viku og á Jamaíka fór nýgengi smita úr 4,3 á hverju 100 þúsund íbúa í 20,8 á einni viku, eftir því sem fram kemur á fréttavef Sky News.

Eitt land var svo tekið af listanum, en það er Kúba, og er fólk sem ferðast þaðan til Bretlands nú frjálst ferða sinna um leið og það kemur til landsins.  Skotar og Walesverjar hafa tekið sjálfstæðar ákvarðanir í þessum málum, t.d. bættu Skotar Svisslendingum á sinn rauða lista í síðustu viku og Singapúrar þurfa að sæta sóttkví þegar þeir koma til Wales. 

Bresk stjórnvöld hafa sætt gagnrýni fyrir það hvernig þau hafa staðið að þessum málum í sumar. Ferðaskipuleggjendur og farþegar reiddust þannig mjög þegar ákveðið var að skikka alla Spánarfara í sóttkví við heimkomuna, nánast fyrirvaralaust. Ferðalangar frá Frakklandi fengu aðeins nokkurra daga fyrirvara fyrr í þessum mánuði.

Nýi listinn tekur gildi frá og með næsta laugardegi en Grant Shapps, samgönguráðherra Bretlands, segir að ákvörðun um setja lönd á listann tekna að lokinni ítarlegri ígrundun og í samstarfi við stofnanir og sérfræðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×