Jacob Blake, sem er lamaður eftir að hafa verið skotin sjö sinnum í bakið af lögregluþjóni, er ekki lengur handjárnaður við sjúkrarúm sitt.
Þetta staðfestir lögmaður hans í viðtali við CNN en greint var frá því í dag að Blake hafi verið handjárnaður við sjúkrarúm sitt. Fjölskyldu og lögmanni hans þótti það fráleitt, þar sem ljóst væri að lömun hans gerði það að verkum að hann gæti ekki yfirgefið sjúkrahúsið.
Þá hefur heimildin sem lögregla nýtti sér til þess að hafa Blake handjárnaðan við sjúkrarúmið verið gerð ógild. Lögregluþjónar standa heldur ekki lengur vaktina við sjúkrahúsið.
Blake var skotinn eftir að hann lenti í stympingum við lögregluþjóna í borginni Kenosha. Lögreglan hefur gefið út að útkall hafi borist vegna heimiliserja en Blake var skotinn minna en þremur mínútum eftir að lögregluþjóna bar að garði.
Myndbönd af vettvangi sýna að lögregluþjónar reyndu að skjóta hann með rafbyssu en það gekk ekki eftir. Blake gakk þá að bíl sínum, opnaði hurðina við bílstjórasætið og teygði sig inn í bílinn. Lögregluþjónn togaði þá í bol Blake og skaut hann sjö sinnum í bakið. Þrír synir Blake voru í bílnum.
Síðan þá hafa mótmæli farið fram daglega í Kenosha og hafa þau snúist upp í óeirðir. Á þriðjudagskvöldið voru tveir mótmælendur skotnir til bana af 17 ára dreng sem var vopnaður hálfsjálfvirkum riffli. Sá hafði komið til borgarinnar ásamt öðrum vopnuðum hægri sinnuðum mönnum til að verja fyrirtæki frá mótmælendum, að þeirra eigin sögn.