Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitaði karlmanns í Laugardal í dag en fann ekki. Samkvæmt dagbók lögreglunnar yfir verkefni dagsins var maðurinn sagður hafa verið að sveifla kúbeini. Auk þess var hann sagður reiður.
Þá handtók lögreglan karlmann í Laugardal en sá var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar karlmaður var handtekinn í grennd við lögreglustöðina á Hverfisgötu, grunaður um líkamsárás og heimilisofbeldi.
Þá hafa tveir verið fluttir á slysadeild eftir umferðarslys í dag, annar eftir árekstur á Hringbraut við Bústaðaveg og hinn eftir að hafa fallið af reiðhjóli við Sæbraut.
Lögregla brást þá við tilkynningu um innbrot á hótel í miðbæ Reykjavíkur. Ekki liggur fyrir hvort einhverju var stolið.