Erlent

Efast um að bóluefni verði tilbúið í október

Kjartan Kjartansson skrifar
Anthony Fauci telur ekki líklegt að bóluefni verði tilbúið í næsta mánuði, rétt fyrir kosningar í Bandaríkjunum, jafnvel þó að það sé hugsanlegt.
Anthony Fauci telur ekki líklegt að bóluefni verði tilbúið í næsta mánuði, rétt fyrir kosningar í Bandaríkjunum, jafnvel þó að það sé hugsanlegt. Vísir/EPA

Helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar telur ekki líklegt að bóluefni gegn nýju afbrigði kórónuveiru verði tilbúið í október, jafnvel þó að það sé „hugsanlegt“. Hvíta húsið segir að enginn þrýstingur sé á heilbrigðisyfirvöld að votta bóluefni fyrir kosningar sem fara fram í nóvember.

Lýðheilsusérfræðingar lýstu áhyggjum af því í gær að pólitískur þrýstingur gæti verið á að votta bóluefni gegn kórónuveirunni fyrir forseta- og þingkosningar sem fara fram í byrjun nóvember í kjölfar frétta af því að Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) hefði sent heilbrigðisyfirvöldum í öllum ríkjum og landsvæðum Bandaríkjanna leiðbeiningar um að þau skyldu búa sig undir að byrja að dreifa bóluefni gegn kórónuveirunni þegar í næsta mánuði.

Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar, sagðist í viðtali við CNN-sjónvarpsstöðina í dag telja það „hugsanlegt“ að bóluefni gæti verið til í október en það væri þó ekki líklegt.

„Þetta eru allt ágiskanir,“ sagði Fauci sem telur sjálfur líklegra að bóluefni gæti komið fram í nóvember eða desember.

Kayleigh McEnany, blaðafulltrúi Hvíta hússins, hafnaði því í dag að lyfjayfirvöld lægju undir þrýstingi um að gefa bóluefni grænt ljós í flýti.

„Enginn er að þrýsta á Lyfja- og matvælastofnunina um neitt,“ fullyrti McEnany.

Talið er að bóluefnin sem CDC undirbýr að hefja dreifingu á séu þau sem Pfizer og Moderna þróa. Forstjóri Pfizer segir að niðurstöður um hvort að bóluefni þess virki eigi eftir að fást fyrir lok október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×