Erlent

Sjö lögregluþjónum vikið úr starfi vegna dauða Daniel Prude

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmæli fóru fram í Rochester í nótt og kom til átaka milli mótmælenda og lögreglu.
Mótmæli fóru fram í Rochester í nótt og kom til átaka milli mótmælenda og lögreglu. AP/Adrian Kraus

Borgarstjóri Rochester í New York í Bandaríkjunum hefur vikið sjö lögregluþjónum frá störfum vegna dauða Daniel Prude, þeldökks manns sem dó vegna köfnunar í haldi lögreglu í mars. FJölskylda hans opinberaði nýverið myndbönd sem sýna að lögregluþjónar settu hettu á hann og þrýstu honum niður í götuna í tvær mínútur.

Fjölskylda Prude hefur kallað eftir því að lögregluþjónarnir verði handteknir og ákærðir og til mótmæla koma í miðborg Rochester í gær.

„Ég hringdi eftir hjálp fyrir bróður minn. Ekki svo hann yrði tekinn af lífi,“ sagði Joe, bróðir Prude, á blaðamannafundi á miðvikudaginn. Prude hafði þá átt við geðræn vandamál að stríða og hljóp nakinn eftir götum Rochester.

Lovely Warren, borgarstjóri Rochester, bað fjölskyldu Prude afsökunar á blaðamannafundi í gær og sagði lögregluna hafa brugðist Prude. Geðheilsukerfið, samfélagið og hún sjálf hefðu einnig brugðist honum.

Hún sagði kerfisbundin rasisma hafa leitt til dauða Prude.

Warren hefur verið gagnrýnd vegna þess að ekki hafi verið gripið til aðgerða fyrr en nú. Hún gaf ekki upp af hverju rannsókn á dauða Prude hefur tekið svo langan tíma en gaf í skyn, samkvæmt frétt New York Times, að lögreglustjóri Rochester hafi afvegaleitt hana.

„Það að þjást og deyja í haldi lögreglu vegna of stórs skammts fíkniefna, eins og lögreglustjórinn sagði mér, er ekki það sem ég sá á myndbandinu,“ sagði Warren.

Lögreglustjórinn, La’Ron D. Singletary, brást reiður við. Hann sagði að ekki hefði verið reynt að hylma yfir eitt né neitt. Hann hefði sjálfur skipað fyrir að rannsókn væri fram nokkrum klukkustundum eftir atvikið.

Þá lýsti hann yfir stuðningi við vinnubrögð lögregluþjónanna. Þeir hefðu verið að reyna að hjálpa Prude.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×