Fótbolti

Messi verður áfram hjá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Lionel Messi hefur ekki spilað sinn síðasta leik fyrir Barcelona.
 Lionel Messi hefur ekki spilað sinn síðasta leik fyrir Barcelona. EPA-EFE/ANDREU DALMAU

Lionel Messi hefur ákveðið að spila með Barcelona á komandi tímabili þrátt fyrir að hafa tilkynnti félaginu fyrir aðeins tíu dögum að hann væri á förum.

Lionel Messi sendi fax til Barcelona á þriðjudaginn í síðustu viku um að hann ætlaði að notfæra sér klásúlu í sínum samningi sem leyfði honum að fara á frjálsri sölu.

Barcelona stóð fast á sínu og ætlaði ekki að verða við ósk hans. Jorge Messi, faðir Leo og umboðsmaður hans, fór til fundar við forráðamenn Barcelona og eftir hann var ljóst að ef Messi ætlaði að komast í burtu þá yrði það að gerast í réttarsalnum.

Mikið var skrifað um að Messi væri á leiðinni til Manchester City en honum hefur nú snúist hugur og ætlar að klára síðasta árið í samningi sínum.

Barcelona hélt því fram að til að fá Messi yrði viðkomandi félag að kaupa upp samning hans fyrir 700 milljónir evra. Spænska deildin stóð með Barcelona í þessu máli.

Það er aftur á móti ljóst á orðum Lionel Messi að hann er allt annað en sáttur. Það kemur líka fram að hann hafi verið fyrir löngu búinn að segja Josep Maria Bartomeu forseta Barcelona að hann væri á förum. Forsetinn vissi af því löngu áður en Barcelona tapaði 8-2 á móti Bayern München í Meistaradeildinni.

„Ég var ekki ánægður og vildi fara. Ég fæ ekki leyfi til þess frá félaginu og verð því áfram hjá félaginu svo að þetta mál endi ekki fyrir dómstólum. Það skelfilegt hvernig Bartomeu stjórnar félaginu,“ sagði Lionel Messi í viðtali við Goal.com sem sagði fyrst frá þessu.

Lionel Messi er langmarkahæsti leikmaður Barcelona frá upphafi og hefur unnið fleiri titla með félaginu en nokkur annar leikmaður. Hann hefur spilað allan sinn feril hjá félaginu en Messi kom til Barcelona aðeins þrettán ára gamall.

Lionel Messi hefur unnið 33 titla með Barcelona og skorað 634 mörk fyrir félagið og það í aðeins 731 leik.

Lionel Messi heldur því fram að Josep Maria Bartomeu, forseti Barcelona, hafi lofað honum að hann mætti fara eftir tímabilið og þegar möguleikinn á að losa sig rann út þann 10. júní þá var Barcelona enn að klára tímabilið vegna kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×