Innlent

Harmar alvarleg og afdrifarík mistök Krabbameinsfélagsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heilbrigðisráðherra harmar mistökin Krabbameinsfélagsins og segir hug sinn hjá þeim sem eigi um sárt að binda vegna þeirra.
Heilbrigðisráðherra harmar mistökin Krabbameinsfélagsins og segir hug sinn hjá þeim sem eigi um sárt að binda vegna þeirra. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að mistök sem urðu hjá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands (KÍ) við skimanir vegna leghálskrabbameins séu alvarleg og afdrifarík.

„Ég harma þau og hugur minn er hjá þeim sem málið snertir á einhvern hátt og eiga um sárt að binda vegna þess,“ segir Svandís.

Hún minnir á að um áramótin verði breytingar á fyrirkomulagi krabbameinsskimana. Þá færist ábyrgð á leghálsskimunum frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar og brjóstaskimanir til Landspítalans. Þær breytingar hafi verið lengi í undirbúningi og það sé hennar skoðun að krabbameinsskimanir eigi að vera hluti af opinberi þjónustu.

Breytt skipulag sem þá tekur gildi byggist á tillögum skimunarráðs og embættis landlæknis og verður þar með nær því skipulagi skimana sem mælt er með í leiðbeiningum Evrópusambandsins.

„Ég vil að lokum beina því til kvenna um land allt að sinna boðum um reglubundna krabbameinsskimun, Skimanirnar eru mikilvæg forvörn gagnvart illvígum sjúkdómi þar sem snemmgreining ræður miklu um meðferð, batahorfur og lífslíkur þeirra sem greinast. Hér er því mikið í húfi.“

Facebook-færslu Svandísar má sjá að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×