Japönsk yfirvöld hafa beint því til 810 þúsund manna í fjórum héruðum í suðvesturhluta landsins að yfirgefa heimili sín og leita skjóls þegar í stað vegna yfirvofandi komu fellibylsins Haishen.
Búist er við að fellibylurinn muni sækja enn frekar í sig veðrið í dag og vindhraðinn ná allt að 45 metrum á sekúndu, samhliða miklu úrhelli.
Haishen mun fara yfir eyjuna Kyushu í dag og mun fellibylurinn ganga á land í Suður-Kóreu á morgun, mánudag.
Haishen herjar á íbúa á svæðinu einungis fáeinum dögum eftir að fellibylurinn Maysak gekk þar yfir, en hann var einn sá öflugasti til að ganga yfir heimshlutann í fjölda ára.
BBC segir frá því að loka hafi þurft verksmiðjum, skólum og verslunum víðs vegar um vesturhluta Japans vegna fellibyljanna og þá hafa flug- og lestarsamgöngur raskast verulega.
Ríkisstjórn Japans kemur saman til neyðarfundar síðar í dag vegna málsins.
Því hefur verið beint til alls fimm milljóna manna að vera í startholunum og vera reiðubúin að flýja heimili sín með skömmum fyrirvara.