Innlent

Gagnrýni rignir yfir Róbert

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Róbert Spanó og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Róbert Spanó og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/EPA

Heimsókn Róberts Spanó, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, til Tyrklands hefur verið gagnrýnd harðlega úr ýmsum áttum í vikunni. Á meðal þeirra sem furða sig á heimsókn Róberts eru leikmaður í NBA-deildinni, Evrópuþingmenn og tyrkneskur auðkýfingur.

Heimsókn Róberts til Tyrklands var í boði dómsmálaráðuneytis landsins. Hann heimsótti þar m.a. dómaraskólann í Ankara og hitti Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta í forsetahöllinni.

Þegar hefur verið greint frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, furðaði sig á heimsókninni í færslu á Facebook sem hún birti í gærkvöldi.

Hún kvað Róbert eiga að vita manna best að mannréttindi eigi undir högg að sækja í Tyrklandi og að reglur réttarríkisins séu ekki virtar í landinu. Enn sé verið að fangelsa fólk eftir valdaránstilraun 2016 fyrir þær sakir að vera ósammála stefnu stjórnarflokksins.

Og gagnrýnisraddirnar eru fleiri. Kenneth Roth, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, vekur athygli á heimsókn Róberts á Twitter í morgun. Þar bendir hann á að forseti Mannréttindadómstóls Evrópu hafi þegið heiðursnafnbót við háskólann í Istanbúl, „háskóla sem rak fjölda fræðimanna úr starfi á ólöglegan hátt“. Það grafi undan boðskap Róberts til Erdogan um að virða lög og reglu.

Enes Kanter, leikmaður Boston Celtics í NBA-deildinni sem er af tyrkneskum ættum, segir á Twitter-reikningi sínum í gær að Róbert ætti að segja af sér sem forseti Mannréttindadómstólsins fyrir að hafa fundað með Erdogan, manni sem brjóti mannréttindi.

„ENGINN ætti að skríða í duftinu fyrir einræðisherra. Svívirðilegt!“ skrifar Kanter.

Re­becca Harms, sem var til árs­ins 2019 þingmaður á Evr­ópuþing­inu, segir í færslu á Twitter 31. ágúst að það sé „ógeðslegt“ að Róbert skuli þiggja heiðursnafnbót frá háskólanum í Istanbúl.

Akin Ipek, tyrkneskur auðkýfingur sem flúði Tyrkland fyrir fimm árum, skrifar Róbert opið bréf sem hann birti á Twitter síðdegis í dag. Þar segir hann að það gagnist engum að líta fram hjá alvarlegum mannréttindabrotum sem framin séu í Tyrklandi.

Skúli Magnússon, héraðsdómari og fyrrverandi formaður Dómarafélags Íslands, segir í aðsendri grein á Vísi í dag að það sé skiljanlegt að ýmsir upplifi framgöngu Róberts „ekki sem hlutlausa heldur þvert á móti sem ákveðna pólitíska blessun á ríkjandi ástandi.“

„Hvað sem líður spurningum um hæfi Róberts sem dómara í málum Tyrklands fyrir Mannréttindadómstólnum á næstu misserum verður þetta að teljast óheppilegt fyrir ímynd og trúverðugleika dómstólsins,“ skrifar Skúli.

„Auðvitað má segja að hinum unga dómsforseta sé vorkunn að því leyti að heimsókn hans til Tyrklands hlaut óhjákvæmilega að vekja gagnrýni, hvernig svo sem hann hefði haldið á málum. En einmitt í því ljósi hlýtur að vera spurt hvort forseti Mannréttindadómstólsins hefði, a.m.k. við núverandi aðstæður í Tyrklandi, ekki einfaldlega betur heima setið en af stað farið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×