Sport

Sýndu æfingu Söru og Björgvins á margföldum hraða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson og Sara Sigmundsdóttir kepptu saman fyrir Foodspring í desember á síðasta ári og er þessi mynd af Instagram síðu Foodspring_athletics's.
Björgvin Karl Guðmundsson og Sara Sigmundsdóttir kepptu saman fyrir Foodspring í desember á síðasta ári og er þessi mynd af Instagram síðu Foodspring_athletics's. Mynd/Instagram

Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson æfa saman í lokaundirbúningnum sínum fyrir heimsleikana í CrossFit sem hefjast eftir aðeins ellefu daga.

Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson ætla sér stóra hluti á heimsleikunum í CrossFit sem hefjast eftir minna en tvær vikur.

Síðustu og næstu dagar eru mjög mikilvægur tími fyrir besta CrossFit fólk heims þar sem þau leggja lokahöndina á undirbúning sinn fyrir heimsleikana. Þau hafa um leið fengið smá vísbendingar um hvað bíður þeirra á þessum óvenjulegu heimsleikum sem fara að þessu sinni í gegnum netið.

Sara og Björgvin Karl hafa sama umboðsmann, Snorra Barón Jónsson, og hafa oft unnið saman. Bæði eru þau í heimsklassa í sinni íþrótt og því tilvalið fyrir þau að æfa saman til að keyra hvort annað áfram í lokaundirbúningi sínum fyrir heimsleikana.

Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson hafa þegar náð frábærum árangri á öflugi netmóti á þessu ári því þau urðu bæði í öðru sæti á Rogue Invitational mótinu í júní en aðeins besta CrossFit fólk heims fékk boð á það mót.

Sara Sigmundsdóttir sýndi myndband á Instagram síðu sinni sem er upphaflega komið frá The Training Plan Instagram síðunni.

Myndbandið sýnir þau Söru og Björgvin Karl gera heila krefjandi æfingu saman en það sem er óvenjulegt er að hún er sýnd á margföldum hraða. Myndbandið er frá æfingu þeirra á heimavelli Söru í Simmagym í Reykjanesbæ.

Þarna má sjá þau gera fjórar umferðir af 100 sippum og inn á milli henda þungum boltum í vegg, ganga á höndum og gera kviðæfingar.

Undirritaður er þó frekar viss um að þau Sara og Björgvin Karl hafi reyndar ekki valið Klaufabárða-tónlistina sem er spiluð undir æfingunum en eins og sjá má hér fyrir neðan þá er skemmtilegt að sjá þau gera æfinguna svona hlið við hlið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×