Hinn 17 ára gamli Eduardo Camavinga fékk að spila fyrir heimsmeistaralið Frakka gegn Króötum í kvöld og er þar með yngsti leikmaðurinn til að spila fyrir Frakkland í yfir heila öld, eða frá árinu 1914.
Camavinga þykir afar fjölhæfur miðjumaður. Hann lék sína fyrstu leiki fyrir Rennes þegar hann var nýorðinn 16 ára og kom við sögu í 36 leikjum með liðinu á síðustu leiktíð. Framganga hans skilaði honum sæti í franska landsliðshópnum og svo stóru stundinni – hálftíma gegn Króötum í franska landsliðsbúningnum í kvöld. Staðan var jöfn þegar Camavinga kom inn á fyrir N'Golo Kanté en Frakkar unnu leikinn 4-2.
17-year-old Eduardo Camavinga is the youngest player to make his debut for France since 1914 pic.twitter.com/j3UoYGKTx7
— ESPN FC (@ESPNFC) September 8, 2020
Ljóst er að helstu stórlið Evrópu horfa til Camavinga og hann hefur verið orðaður við Real Madrid en er sagður vilja vera áfram hjá Rennes enn um sinn. Þar er hann uppalinn.
Camavinga sló meðal annars Kylian Mbappé við með því að koma inn á í kvöld, 17 ára og tæplega 10 mánaða gamall. Mbappé var 18 ára og þriggja mánaða þegar hann lék gegn Lúxemborg í mars 2017.
Yngsti landsliðsmaðurinn í sögu Frakklands er Julien Verbrugghe sem var 16 ára og 10 mánaða þegar hann lék í 15-0 tapi gegn áhugamannaliði Englands.