Hlutfall virkra smita á landamærunum hefur tífaldast undanfarnar vikur. Sóttvarnalæknir telur aukninguna mega rekja til þess vaxtar sem kórónuveirufaraldurinn sé í erlendis. Þetta kom fram í máli hans á upplýsingafundi Embætti landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag.
Þórólfur greindi frá því að hlutfall smitaðra á landamærunum væri nú um 0,3% sem svarar til um eins farþega af hverjum rúmlega þrjú hundruð. Hlutfallið var hins vegar 0,03% í júní og júlí.
Þá sagði Þórólfur að rúmlega 60% þeirra sem greinast á landamærunum eigi lögheimili hér á landi. 24% þeirra sem greinast á landamærum séu íslenskir ríkisborgarar en restin mjög dreifð eftir ríkisföngum.
Hann hyggst í dag senda ráðherra tillögur um hvernig aðgerðum á landamærum skuli háttað. Hann vildi ekki fara nánar út í tillögur sínar á fundinum í dag og taldi réttara að ráðherra fengi að lesa þær fyrst.
Farþegar sem koma til Íslands erlendis frá geta valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur með 5 daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins. Börn fædd árið 2005 eða síðar eru undanþegin sýnatöku.
Núverandi fyrirkomulag á landamærum gildir til 15. september. Þórólfur minnti á að hann teldi ekki ráðlagt að ráðast í tilslakanir innanlands og á landamærum á sama tíma. Breytingar innanlands er varða eins metra reglu og 200 manna samkomur tóku gildi á mánudag.