Veðurstofa Bandaríkjanna hefur gefið út rauða viðvörun vegna mikils óveðurs sem nálgast nú vesturströnd landsins. Miklum vindum er spáð og er mikil hætta á að vindarnir muni dreifa enn meira úr eldunum mannskæðu sem geisa nú á vesturströndinni.
Vindstyrkur gæti náð allt að 64 kílómetrum á klukkustund í suðurhluta Oregon og ekkert útlit er fyrir að rigni.
Eldarnir hafa geisað síðastliðnar þrjár vikur í Oregon, Kaliforníu og Washington ríkjum og hefur stórt landssvæði brunnið til kaldra kola sem og fjöldi heimila. Tugir þúsunda hafa þurft að flýja heimili sín og minnst 33 látist sökum eldanna.
Enn er tuga saknað í Oregon ríki og hafa yfirvöld þar lýst því yfir að þau búist ekki við því að finna fólkið á lífi.
Veðurskilyrði voru betri í gær, laugardag, en þau hafa verið undanfarnar vikur en bæði var kaldara í veðri og meiri raki í lofti. Veðurspár næstu daga eru þó ekkert fagnaðarefni fyrir íbúa á vesturströndinni og virðist enn langt í land þar til eldarnir verða sigraðir.
Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum hafa eldarnir brennt landsvæði á stærð við New Jersey, um 22,6 þúsund ferkílómetrar. Það jafnast á við fimmtung Íslands.