Fótbolti

Þær sænsku munu ekki vanmeta okkur

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir í rigningunni sem buldi á leikmönnum í seinni hálfleik í Laugardalnum í kvöld.
Glódís Perla Viggósdóttir í rigningunni sem buldi á leikmönnum í seinni hálfleik í Laugardalnum í kvöld. VÍSIR/VILHELM

„Við treystum þeim sem eru fyrir framan okkur fyrir þessu,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir sem átti afar náðugan dag í hjarta íslensku varnarinnar í 9-0 sigrinum gegn Lettlandi. Hún mun hafa í nógu að snúast gegn bronsliði Svía á þriðjudag.

Ísland raðaði inn mörkum gegn botnliði Lettlands í undankeppni EM í kvöld, og fékk varla á sig skot í leiknum:

„Ég er mjög ánægð með liðið. Við spiluðum flottan bolta – mörg markanna komu upp úr mjög flottu spili sem ég er bara ánægð með. Þetta er eitthvað sem hefur kannski vantað svolítið, og það var mjög gott að fá það í dag, sérstaklega eftir að hafa ekki verið búnar að hittast í níu mánuði,“ sagði Glódís, en var henni farið að leiðast fyrst svo óhemju lítið var að gera í vörninni í kvöld?

Segi nú ekki að mér hafi leiðst

„Ég segi nú ekki að mér hafi leiðst en boltinn var vissulega ekki mikið hjá okkur. En maður finnur sér annað að gera, eins og að skipuleggja þannig að þær fái ekki skyndisóknir og alls konar annað. En við treystum þeim sem eru fyrir framan okkur fyrir þessu.“

Glódís hefur spilað í toppbaráttunni í Svíþjóð síðustu ár og ætti að þekkja sænska landsliðið, sem Ísland mætir í toppslag á þriðjudaginn, afar vel:

„Það er allt öðruvísi leikur. Við verðum líklega mikið minna með boltann í þeim leik, og það mun reyna meira á varnaruppstillinguna okkar þar. Það verður samt líka gaman að sjá hvort við náum upp svona spili í þeim líka.

Þær munu ekki vanmeta okkur. Þær vita að þær eru að koma í hörkuleik og að þetta verður barátta. Þær eru með gott lið og hafa sannað það á öllum stórmótum að þær geta unnið bestu lið í heimi, en ég tel okkur samt eiga séns ef við spilum okkar leik og gefum þeim alvöru slag,“ sagði Glódís.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×