Valsliðinu er spáð Íslandsmeistaratitlinum í Domino´s deild kvenna í körfubolta á komandi tímabili en spáin var kynnt á kynningarfundi deildarinnar í dag.
Valskonur eru með besta lið landsins í kvennakörfunni að mati bæði liðanna í deildinni sem og fjölmiðlamanna.
Körfuknattleikssambandið fékk bæði liðin og fjölmiðla til að spá og birti báðar spárnar á kynningarfundinum.
Valsliðið fékk fullt hús hjá fjölmiðlamönnum og næstum því fullt hús frá fyrirliðum, forráðamönnum og þjálfurum. Valskonur hluti yfirburðarkosningu á báðum stöðum.
Valsliðið er búið að fá landsliðsmiðherjann Hildi Björgu Kjartansdóttur frá KR en Helena Sverrisdóttir er aftur á móti komin í barnsburðarleyfi. Valsliðið varð deildarmeistari á síðustu leiktíð og þótti langsigurstranglegast í úrslitakeppninni sem aldrei var spiluð vegna kórónuveirunnar.
Spárnar eru alveg eins þegar kemur að röð liðanna. Skallagrímskonum er spáð öðru sætinu og Keflavík og Haukar eiga að komast í úrslitakeppnina með Skallagrími og Val. KR er síðan spáð falli úr deildinni í báðum spám.
Það var einnig spáð um niðurstöðuna í 1. deild kvenna en liðin og fjölmiðlamenn eru ekki sammála um hvort Njarðvík eða Grindavík fari upp. Njarðvík er spáð upp af fyrirliðum, forráðamönnum og þjálfurum en fjölmiðlamenn hafa meiri trú á Grindavíkurstelpunum.
ÍR og Tindastóll eiga síðan að komast í úrslitakeppnina með Njarðvík og Grindavík þar sem barist verður um eitt laust sæti í Domino´s deild kvenna á næsta tímabili.
Hér fyrir neðan má sjá niðurstöðurnar úr spánni fyrir báðar deildir.
Spá fyrirliða, forráðamanna og þjálfara fyrir Domino´s deild kvenna:
- 1. Valur 186 stig
- 2. Skallagrímur 151
- 3. Keflavík 143
- 4. Haukar 131
- 5. Breiðablik 76
- 6. Fjölnir 72
- 7. Snæfell 61
- 8. KR 44
- (Mest var hægt að fá 192 stig, minnst var hægt að fá 24 stig)
Spá fjölmiðlamanna fyrir Domino´s deild kvenna:
- 1. Valur 88 stig
- 2. Skallagrímur 72
- 3. Keflavík 67
- 4. Haukar 58
- 5. Breiðablik 37
- 6. Fjölnir 25
- 7. Snæfell 25
- 8. KR 24
- (Mest var hægt að fá 88 stig, minnst var hægt að fá 11 stig)
Spá fyrirliða, forráðamanna og þjálfara fyrir 1. deild kvenna:
- 1. Njarðvík 234 stig
- 2. Grindavík 194
- 3. ÍR 183
- 4. Tindastóll 174
- 5. Hamar/Þór Þ. 118
- 6. Stjarnan 97
- 7. Vestri 83
- 8. Fjölnir-B 80
- 9. Ármann 52
- (Mest var hægt að fá 192 stig, minnst var hægt að fá 24 stig)
Spá fjölmiðlamanna fyrir 1. deild kvenna:
- 1. Grindavík 65 stig
- 2. Njarðvík 64
- 3. ÍR 58
- 4. Tindastóll 47
- 5. Stjarnan 39
- 6. Hamar/Þór Þ. 29
- 7. Ármann 22
- 8. Vestri 18
- 9. Fjölnir-B 18
- (Mest var hægt að fá 88 stig, minnst var hægt að fá 11 stig)